Jólin mín

Neðst má finna samansafn af jólauppskriftum.
Eru það hefðir sem móta okkur eða erum það við sem sköpum hefðir? Matur er stór og mikill partur af jólunum og þegar fólk íhugar að mögulega verða vegan þá er ekki óalgengt að spurningin "Hvernig verða þá jólin?" poppi upp í hugann. Síðustu 34 jól eða öll þau ár sem ég hef haft aldur til að borða fasta fæðu höfum við fjölskyldan borðað hnetusteik á jólunum. Notabene alltaf sömu hnetusteikina, hnetusteikina sem gerð er úr hestlihnetum og sellerírót. Hnetusteikin sem er bragðljúf og mjúk undir tönn og í raun mjög ólík öllum þeim hnetusteikum á markaðnum. Hnetusteikin sem er undirbúin nokkurum dögum fyrir jól og lyktin af sellerírótarsoðinu er það sem kallar fram "það eru að koma JÓL" eftirvæntinguna. Það má því segja að hnetusteik á jólunum sé hefð, hefðin okkar.

Mig langar að deila með ykkur hvernig okkar jólahefð og undirbúningur er. Margir tengja smákökubakstur við undirbúning jólanna og vissulega hafa verið bakaðar smákökur á mínu heimili en það hefur einhvernegin aldrei orðið ómissandi. Mögulega hafa misheppnaðar lakkrístoppatilraunir haft áhrif á það og eftir því sem ég hef orðið eldri þá sæki ég til dæmis meira í vegan ostakúlur og kex heldur en þetta sæta bragð. Mamma átti það þó til að búa til geggjaðar ostasmákökur með kúmeni og möndlukökur með kaffikremi sem við eigum reyndar ennþá eftir að veganæsa! En brauðbollur með hörfræum og dilli er kannski það sem við bökum alltaf fyrir jólin og fyllum frystinn af og svo eru ekki jól án þess að eiga nóg af mandarínum.

Eftir að ég bjó í Svíþjóð í nokkur ár þá kynntist ég sænskum jólahefðum og "lussekatter" er ein þeirra. Það er sænskt sætabrauð með saffran sem er bakað og borðað í tilefni Lúsíuhátíðarinnar í desember og fram að jólum. Óvart kom þessi hefð með mér heim þegar ég flutti frá Svíþjóð. Einnig er skagenhræra oft borðuð í Svíþjóð og hægt er að gera vegan útgáfu af henni, þá með tófú og þangperlum, uppskrift hér. Þangperlurnar fengust í ikea en því miður hafa þær ekki fengist þar síðustu 2 ár en Veganbúðin og Melabúðin virðast hafa svarað kallinu.

Þegar ég var yngri var það hefð að pabbi spilaði jazz á veitingastaðum “Á næstu grösum á Þorláksmessu” svo við fjölskyldan eyddum Þorláksmessunni þar og borðuðum saman og kíktum á bæjarrölt eftir á. Sú hefð datt upp fyrir þegar “Á næstu grösum” hætti og höfum við í raun ekki skapað neina hefð eftir það.

Á aðfangadag borðum við grjónagraut/möndlugraut í hádeginu. Stundum höfum við haft möndlu í honum en það var engin regla á því en núna er mandla í grautnum fyrir börnin mín sem verður skemmtileg hefð fyrir þau.

En nú að aðalmáltíð jólanna!

Mögulega snúast jólin um þessa máltíð fyrir mér og það er eitthvað svo sérstakt að borða akkurat þessa hnetusteik aðeins einu sinni á ári (lesist nokkra daga um jólin). Hnetusteikina berum við fram með vegan rjómalagaðri sveppasósu, sætri kartöflumús með hvítlauk og sítrónu, heimasoðnu rauðkáli, strengjabaunum með hvítlauksolíu, súrum gúrkum, smjörsteiktu rósinkáli, sýrðum rauðrófum, piknik og stundum waldorfsalati. Síðustu ár hefur svo bróðir minn sem leynir á sér í eldhúsinu bætt við spínatfylltum wellington með oumph og estragon sósu. Við skolum þessu niður með malti og appelsín eða áfengislausum eplasíder.

Eftirrétturinn!
Mamma var vön að gera ólíkar útgáfur að jólaís og svo gerðum við yfirleitt líka jógúrt eftirrétt með berjum, banana, sultu og hafracrumbli. Þessi jógúrt eftirréttur var í sérstöku uppáhaldi hjá mér og það besta við hann er að hann virkar sem sparimorgunmatur á jóladag. Áður fyrr var eftirrétturinn ekki vegan en þökk sé svo ótrúlegu úrvali af flottum vegan vörum hefur verið lítið mál að veganæsa eftirréttinn.

í hádeginu á jóladag gerum við vegan rjómalagaða sellerísúpu, uppskrift hér eða rósinkálssúpu og borðum dill brauðbollurnar með. Að mínu mati fullkomið að borða súpu eftir gúffið kvöldið áður. Um kvöldið er svo alltaf afgangakvöld svo lágmarks bras í eldhúsinu. Eftir að ég kynntist Ragnar höfum við svo yfirleitt farið í jólaboð á jóladag hjá föðurættinni hans en hann á einmitt líka eina frænku sem er vegan svo þar er boðið uppá aspassúpu, fléttubrauð og hnetusteik fyrir okkur grænkerana. Það er ótrúlega dýrmætt þegar komið er til móts við mann af óvegan fjölskyldumeðlimum og alls ekki allir svo lánsamir. Það er alveg efni í pistil útaf fyrir sig.

Annan í jólum er yfirleitt aftur máltíð svipuð og á aðfangadag nema kannski aðeins lágstemdari og afgangar nýttir.

Hér fyrir neðan eru nokkrar uppskriftir sem gætu komið sér vel um jólin. Ég vona innilega að þið njótið hátíðanna sem best og jafnvel endurskoðið hefðir sem mögulega eru streituvaldandi eða stangast á við ykkar gildi.


Previous
Previous

Lífstíll eða óheppni?

Next
Next

Barnaafmæli, Róbert 5 ára