Brauðbollur með rjómaosti og hörfræjum

Jólabrauðbollurnar okkar

Súpubollurnar sem mamma fyllir alltaf frystinn af um jólin. Geggjaðar til að grípa í með jóladagssúpunni eða með vegan rjómaosti og sultu sem millimál yfir notalegri jólamynd. Það er í raun ekkert jólalegt við sjálfa uppskriftina nema það að bollurnar eru hluti af okkar hefð um jólin, þessar eru nefninlega líka fullkomnar í nestisboxið eða með súpunni í hvaða mánuði sem er. Ég bakaði eina uppskrift um daginn og bollurnar hurfu á sólarhring svo ég hugsa að ég brjóti hefðina og baki þessar bollur miklu oftar yfir árið. Uppskriftin er upprunalega úr bók sem mamma átti frá Fríðu Böðvars svo hún má sko aldeilis eiga heiðurinn af bollunum en hér fyrir neðan hef ég skipt út nokkrum hráefnum til að gera hana vegan.

Þú þarft:

  • 50 g smjörlíki

  • 5 dl jurtamjólk

  • 1 lítil dós, 200ml, vegan sýrður rjómi (svört dós frá oatly)

  • 4 msk vegan rjómaostur (bláa dósin frá oalty)

  • 2 msk agavesíróp (upprunalega var hunang)

  • 1 bréf þurrger

  • 2 tsk jurtasalt

  • 1 msk dill (ferskt eða þurrkað)

  • 2 dl hveitiklíð

  • 2 dl heilhveiti

  • 10 dl hveiti (hveiti getur verið ólíkt svo settu minna eða meira eftir tilfinningu)

  • 2 - 3 dl hörfræ + til að strá yfir bollurnar

  • jurtamjólk (smá til penslunar)

Aðferð:

  1. Bræðið smjörlíkið og blandið rjómaostinum, sýrða rjómanum og mjólkinni saman við og látið hitna upp í 37°c.

  2. Leysið gerið upp í vökvanum og leyfið að standa í 2-3 mínútur.

  3. Blandið síðan salti, agavesírópi og dilli vel saman við.

  4. Komið vökvanum fyrir í stórri skál og bætið hörfræjum og mjölinu saman við. Ágætt að byrja á setja hveitiklíðið, heilhveitið og helminginn af hveitinu saman við og blanda saman með höndunum og bæta svo restinni af hveitinu varlega útí í skömmtum þar til áferðin er orðin þægileg að vinna með.

  5. Hnoðið deigið vel og látið hefast undir rökum klút á hlýjum stað í 45 mínútur.

  6. Hnoðið litlar bollur (ca 20 stk), penslið með jurtamjólk og stráið

    hörfræjum og jafnvel smá jurtasalti yfir.

  7. Bakið í miðjum ofni við 225°c í 12-15 mín.

Verði ykkur að góðu.

Previous
Previous

Sellerísúpa

Next
Next

Hrákúlur með kakó og appelsínubragði