Vegan og glútenlaus sveppasósa
“Hún er geðveik mamma, þú verður að gera uppskrift af henni” voru orð sonar míns þegar hann fékk þessa með kvöldmatnum. Hefði ekki getað óskað mér betri viðbrögð enda eru börn bestu dómararnir. Hreinskilin og kröfuhörð.
Þetta er sveppasósa sem er létt í sér og minnir á gravy. Hún er að mestu lífræn, fyrir utan sveppina sem ég fann ekki lífræna, án aukaefna og glútenlaus. Passar vel með hnetusteik, með grænmetisbuffi, kartöflumúsinni… og ef þú spyrð krakkana mína þá má borða hana eintóma.
Hveiti er oft notað í sósur til að þykkja þær en hér nota ég kjúklingabaunamjöl sem inniheldur ekki glúten en virkar eins til þykkingar. Mörgum til mikillar gleði bætir það líka próteini í sósuna.
Færslan er unnin í samstarfi við oatly á íslandi, en lífræna oatly mjólkin inniheldur aðeins hafra, vatn og salt.
Þú þarft:
1 msk ólífuolía til steikingar
1 laukur (má sleppa og nota fleiri sveppi í staðinn)
250 gr kastaníu sveppir eða venjulegir
3 hvítlauksrif
4 tsk tamari
2 dl sveppa eða grænmetissoð (2 dl vatn + 1 tsk jurta eða sveppakraftur í dufti)
3 msk kjúklingabaunamjöl + 1 dl vatn
500 ml lífræn haframjólk frá oatly
1 tsk ljós lífrænt miso
Aðferð:
Byrjað er á að skera lauk og sveppi smátt.
Steikið laukinn og sveppina í olíu þar til laukurinn er farinn að mýkjast.
Bætið hvítlauk og tamarí útá pönnuna og hrærið stöðugt.
Bætið ca 3/4 af mjólkinni útí og hrærið vel og leyfið suðu að koma upp.
Setjið kjúklingabaunamjöl og kalt vatn í krukku með loki og hristið vel, hellið svo útí pottinn í mjórri bunu og hrærið stöðugt á meðan. Nú ætti sósan að þykkjast.
Bætið nú soðinu og restinni af mjólkinni útí og leyfið að malla í nokkrar mínútur.
Síðast bætist misoið útí, hrærið vel og sjáið til þess að það leysist allt upp.
Verði ykkur að góðu.