Möndlu- og kókoskökur

Þessari langaði mig að deila fyrir jól því þessar voru oft bakaðar í desember …. þangað til möndlumjölið varð uppselt ALLS staðar. Ég vildi ekki gera ykkur það að deila jafn skemmtilegri uppskrift þegar hráefnið væri ófinnanlegt á landinu.

Uppskriftin myndi teljast til hollari smákaka, er glútenlaus og laus við hvítan sykur. Hún nýtur sín kannski bara betur í mars. Möndlumjölið er allavega til núna. Þær eru ekki ofursætar en gefa þér alveg þessa “smáköku” tilfinningu. Stökkar að utan og “tjúí” að innan.

Færslan er unnin í samstarfi við Rapunzel á íslandi en kókos-og möndlusmjörið með döðlunum leikur hér lykilhlutverki sem bæði sætugjafi og bragðbætir en sér líka til þess að þær haldast saman.

Þú þarft:

  • 1 1/2 dl kókosmjöl

  • 1 1/2 dl möndlumjöl

  • 1/2 dl kókos-og möndlusmjör m/döðlum frá Rapunzel

  • 2 msk hlynsíróp, t.d frá Rapunzel

  • 3 msk þurrkuð trönuber eða rúsínur

  • 1/8 tsk vanilluduft eða 1/4 tsk vanilludropar (má sleppa)

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 180°

  2. Hráefninu er öllu komið fyrir í stórri skál og hrært vel saman.

  3. Mótið litlar kúlur, ca 14 stk og setjið á bökunarplötu. Mér finnst best að þjappa deiginu inní litla sleppiskeið. Gerið kökurnar svo flatar á bökunarpappírnum með lófanum eða glasi.

  4. Bakið í ofni á 180° í 10 mínútur.

  5. Takið kökurnar út og leyfið þeim að kólna alveg áður en þær eru borðnar fram.

Verði ykkur að góðu.

Next
Next

Vegan og glútenlaus sveppasósa