Sellerísúpa

Sellerísúpa…. Rjómalagaða sellerísúpan sem við borðum í hádeginu á jóladag ásamt bestu súpubollunum, uppskrift hér. Við erum vanafasta fólkið sem hefur borðað sömu hnetusteikina á jólunum frá því ég fæddist, já hún er það góð, uppskrift hér. En vaninn er það sem skapar hefðina og hefur þessi súpa sömuleiðis orðið að hefð um hátíðarnar. Það er eitthvað ljúft við það að borða súpu á jóladag. Hátíðarmatur ásamt eftirréttum og tilheyrandi konfekts- og smákökuáti getur oft verið þungt í magann og er það svo gott að brjóta aðeins upp hátíðarnar með súpu, fersku salati og brauðbollum. Þessa súpa er að sjálfsögðu jafn góð aðra mánuði ársins.

Þú þarft:

  • 2 búnt sellerí

  • 2,5 msk jurtakraftur eða 2,5 teningur

  • 1,5 l vatn

  • 1dl hveiti

  • 1 dl kalt vatn

  • 250 - 500 ml vegan matreiðslurjómi* (ég nota oatly)

  • Salt og pipar eftir smekk (ca 1 tsk jurtasalt)

Aðferð:

  1. Skolið og skerið selleríið smátt og sjóðið í 1,5 lítra af vatni ásamt jurtakrafti.

  2. Látið malla á miðlungsháum hita í potti með loki þar til selleríið er orðið mjög mjukt, ca 30-40 mínútur.

  3. Næst er hveitijafningur útbúinn með því að hrista saman 1 dl af hveiti við 1 dl af vatni, ég nota tóma krukku.

  4. Hellið hveitijafningum útí súpuna í mjórri bunu og hrærið allan tíman á meðan. Við þetta þykkist súpan.

  5. Því næst er rjóma bætt útí. *Magn rjóma fer svolítið eftir smekk. Það er mikið sellerí í súpunni svo við það að bæta meiri rjóma í súpuna geriru hana bæði meira rjómakenndari og vökvameiri (færri selleríbitar í hverri skeið). Einnig fer magnið eftir því hversu mikill vökvi hefur náð að gufa upp við suðuna. Ef súpan er elduð í t.d. steipujárnspotti með engu loftgati þá gufar minna upp af vökvanum.

  6. Þú getur líka sleppt því að pæla alltof mikið í þessu og sett 500 ml af rjóma og hún verður þrusugóð.

  7. Smakkið til og saltið eftir smekk.

Verði ykkur að góðu.

Previous
Previous

Sænskir lussekatter með saffran

Next
Next

Brauðbollur með rjómaosti og hörfræjum