Sænskir lussekatter með saffran

Lussekatter, Lussebullar, Lúsíu bollur, Lúsíusnúðar, Lussisar…. þessir eiga allskonar nöfn en ég kynntist þeim sem Lussekatter. Þetta er sænskt sætabrauð sem hefð er að borða í desember en þar er haldin heilög Lúsía og eru “snúðarnir” kenndir við Lúsíu hátíðina. Þetta er sætt brauðbakelsi með ríku saffran bragði.

Ég verð að viðurkenna að þegar ég smakkaði þá fyrst fannst mér þeir bara fínir, ekkert til að missa sig yfir en kannski líka því saffran bragðið var nýtt fyrir mér… Ég get sagt ykkur það að eftir 6 ár í Svíþjóð eru ekki jól án Lussekatta og nokkrum mánuðum fyrir jól hér á Íslandi fer ég að huga að því að útvega mér Saffran frá Svíþjóð.

Saffran er dýrasta krydd í heimi og er svolítið erfitt að fá hér á Íslandi. Þó hef ég séð að Kryddhúsið hafi verið með það og svo er stundum hægt að fá Saffran í svona Austurlenskum matvörubúðum. Saffranið sem ég nota er malað saffran og er selt í litlum 0,5 gramma pokum útí Svíþjóð, já þetta er það sem ég læt fólk kaupa fyrir mig þegar það spyr, “get ég komið með eitthvað fyrir þig frá Svíþjóð”? Ekki samt láta senda ykkur það í pósti, ég hef prófað það og það var gert upptækt haha. Í sumum verslunum í Svíþjóð, ef ekki öllum, þarf að spyrja sérstaklega um Saffranið við kassana því það er jú dýrasta krydd í heimi og fara Svíjarnir með það eins og gull.

Það á að vera hægt er að leggja saffranið í romm til að upphefja bragðið og þá kemst maður upp með að nota minna af því en ég hef þó ekki prufað það sjálf.

Þú þarft:

  • 1 bréf þurrger

  • 175 g smjörlíki

  • 3 litlir saffran pokar (0,5gr/hver) eða 1,5gr saffran*

  • 2 dl sykur

  • 5 dl jurtamjólk

  • 1/2 tsk salt

  • ca 800 - 900gr hveiti

  • Rúsínur (lagðar í bleyti í vatn í smá stund)

Aðferð:

  1. Blandið saffraninu og smá af sykrinu saman, ef þið eruð með saffran þræði (en ekki duft) þá er ágætt að nota mortel og mylja vel úr saffraninu.

  2. Hitið jurtamjólkina þar til hún verður volg og blandið saffrani og sykri útí. Ágætt að leyfa sykrinum að leysast upp. Leysið gerið upp í vökvanum og leyfið að standa í 2- 3 mínútur.

  3. Komið vökvanum fyrir í skál og bætið mjúku smjörlíki sem er við stofuhita saman við ásamt salti og hluta af hveitinu. Bætið svo við restinni af hveitinu smátt og smátt og hnoðið vel. Hveiti getur verið mismunandi svo magn getur aðeins verið breytilegt en deigið á að vera þægilegt að vinna með en nokkuð léttara og klístraðara en brauðdeig.

  4. Látið hefast í 30-40 mínútur við stofuhita (og lokaða glugga) eða í ofni á 40 gráðum.

  5. Takið deigið úr skálinn og hnoðið það lauslega og fletjið það út.

  6. Skerið deigið í ræmur og rúllið öðrum endanum í átt að miðjunni, snúið ræmunni við og rúllið hinum helmingnum að miðjunni. Þá ætti lögunin að líkjast upprúlluðu S-i.

  7. Rúsínum komið fyrir í sitthvora “rúlluna” á látið hefast í aðrar 30 mínútur.

  8. Bakið í 8-10 mínútur á 200°.

Verði ykkur að góðu.

Previous
Previous

Jólalegt brokkólísalat með rauðkáli og trönuberjum

Next
Next

Sellerísúpa