Hrákúlur með kakó og appelsínubragði
Mig er lengi búið að langa að gera kakókúlur með appelsínubragði, mögulega því ég algjörlega elska þessa samsetningu, dökkt súkkulaði og appelsínudjús er mögulega mín fíkn. Ég lét svo loksins verða að því í aðdraganda afmælis míns í október, þegar ég var að plana smá afmælisboð fyrir mitt nánasta fólk. Þær urðu jafn góðar og ég ímyndaði mér svo ég varð að sjálfsögðu að bjóða uppá þær í litlu veislunni minni. “Þetta verður nammið okkar um jólin” sagði pabbi og það eru ágætis meðmæli get ég sagt ykkur því hann er alvöru sælkeri. Ég mæli heilshugar með þessum bráðhollu kúlum sem bragðast eins og nammi og litlum puttum gætu einnig þótt gaman að búa þessar til.
Ég vel alltaf að nota lífrænt hráefni í mínar hrákúlur og mig langar að taka það sérstaklega fram að þar sem börkurinn af appelsínunni er notaður þá er mikilvægt að nota lífræna appelsínu þar sem við viljum ekki nota börk með skordýraeitri í kúlurnar. Ef þú finnur ekki lífræna appelsínu þá myndi ég skipta út berki fyrir meiri appelsínusafa.
Færslan er unnin í samstarfi við Rapunzel á íslandi.
Þú þarft:
2 dl lífrænar möndlur, ég nota frá Rapunzel
2 dl lífrænar kasjuhnetur, ég nota frá Rapunzel
Börkur af 1 lifrænni appelsínu (ca 1 msk)
3 msk lífrænt kakó + kakó til að velta uppúr
15 ferskar döðlur (það þarf að taka steininn úr)
safi úr 1/2 appelsínu
hnífsoddur salt (má sleppa)
Aðferð:
Byrjið á að setja möndlur og kasjúhnetur í matvinnsluvél og gera að smáu kurli.
Bætið kakó og rifnum appelsínuberki útí og blandið aftur. Ef þið setjið salt útí má það fara hér útí.
Steinhreinsið döðlurnar og setjið útí ásamt appelsínusafanum og blandið enn meira.
Rúllið upp í passlega stórar kúlur og veltið uppúr kakói.
Geymist í ísskáp eða frysti. Geymast lengur í frysti … en þessar eru sjaldan til lengi .. þið skiljið ;)
Verði ykkur að góðu.