Piparkökukúlur
Hvað er meira jóla en piparkökur? Hér erum við með hollar hrákúlur eða orkukúlur sem bragðast eins og piparkökur. Þessar toppa hefðbundnar piparkökur að mínu mati og mesti plúsinn er að þær gefa þér alvöru orku. Kanill, negull, malaður engifer og kardimommur eru kryddin sem galdra fram piparkökubragðið.
Ég elska að nota lífrænar mjúkar kasjúhnetur í hrákúlur því þær eru pínu sætar en samt svo skemmtilega hlutlausar að öll krydd njóta sín svo vel.
Færslan er unnin í samstarfi við Rapunzel á íslandi.
Þú þarft:
2dl lífrænar möndlur (ég nota Rapunzel)
2dl kasjúhnetur (ég nota Rapunzel)
1 msk chia
1 tsk kanill
1/2 tsk malaður negull
1/2 tsk kardemommur
1/2 tsk malaður engifer
15 ferskar döðlur (sem þarf að steinhreinsa)
2 msk lífræn kaldpressuð kókosolía
Valfrjáls að rúlla uppúr:
1/2 tsk kanill
1/4 tsk negull
1/4 tsk kardemommur
1/4 tsk malaður engifer
1/2 msk kókospálmasykur
Aðferð:
Byrjið á að setja möndlur og kasjúhnetur í matvinnsluvél og malið niður í mjöl.
Bætið kryddum og chia fræjum útí og setjið vélina aftur af stað.
Steinhreinsið döðlurnar og setjið útí ásamt bráðinni kókosolíu.
Komið “deiginu” fyrir í ísskáp í kannski 10 mínútur (eða lengur) og leyfið að stífna örlítið svo það verði auðveldara að rúlla kúlunum.
Svo er það bara að rúlla litlar kúlur.
Hér er hægt að stoppa og byrja að gæða sér á kúlunum. Róberti finnst þær bestar svona.
EN fyrir örlítið minna klístraðar kúlur er hægt að “loka þeim” og velta þeim uppúr piparkökukryddblöndu og kókossykri sem gera þær aðeins meira spari.
Blandið saman kryddum og kókossykri.
Komið kúlunum fyrir í nestisboxi.
Stráið kryddblöndunni yfir, ég nota ekki alveg alla.
Lokið nestisboxinu og hrisstið boxið léttilega.
Þetta er algjörlega mín uppáhaldsleið til að þekja hrákúlur og virkar þessi aðferð líka með aðrar samskonar hrákúlur. Kryddþekjan á kúlum verður líka passlega þunn svo bragðið í kúlunum nýtur sín ennþá og minna fer til spillis.
Verði ykkur að góðu.