Hnetusteikin okkar

Ljósmynd : Íris Blöndahl (ath myndin er í lágri upplausn)

Síðustu 35 jól eða öll þau jól sem ég hef haft aldur til að borða fasta fæðu höfum við fjölskyldan borðað hnetusteik á jólunum. Notabene alltaf sömu hnetusteikina, hnetusteikina sem gerð er úr hestlihnetum og sellerírót. Hnetusteikin sem er bragðljúf og mjúk undir tönn og í raun mjög ólík öllum þeim hnetusteikum á markaðnum. Hnetusteikin sem er undirbúin nokkurum dögum fyrir jól og lyktin af sellerírótinni kallar fram "það eru að koma JÓL" eftirvæntinguna. Það má því segja að hnetusteik á jólunum sé hefð, hefðin okkar, en akkurat þessi hnetusteik… hnetusteikin okkar.

Eitt árið ákvað ég að fá lánað eldhús á vinnustaðnum mínum og fara í framleiðslu og seldi hnetusteikur fyrir jólin. Síðan þá fæ ég alltaf spurningu hvort ég muni framleiða steikur fyrir jóliln. Þar sem annað hefur verið í forgangi síðustu ár læt ég duga að deila uppskriftinni með ykkur.

Þú þarft:

  • 300gr hestlihnetur

  • 1 meðalstór sellerírót (ca 690gr)

  • 2 laukar gulir

  • 2 dl haframjöl

  • 2 tsk jurtakraftur

  • 1 tsk sellerísalt*

  • 1/2 tsk timjan

  • 1/2 tsk salt (eða meira)

*Sellerísaltinu er hægt að sleppa en þá mæli ég með að skipta því út fyrir jurtasalt, jurtasalt er mjög milt salt svo mögulega viltu bæta við salt magnið!
Hnetusteikin er virkilega mjúk og mild og ef maður vill bæta við kryddum þá myndi ég mæla með mildum jurtakryddum eins og t.d grænmetis paradís frá Kryddhúsinu sem ég setti í mína í ár.

Aðferð:

  1. Afhýðið sellerírótina og skerið í smáa bita ásamt lauknum.

  2. Gufusjóðið svo sellerírótina og laukinn í gufusuðupotti þar til orðið vel mjúkt (soðið er svo tilvalið að geyma í sósuna).

  3. Malið hestlihneturnar í matvinnsluvél ásamt höfrunum. Ég vil hafa hnetusteikina mjúka undir tönn (svo hátíðleg svoleiðis) svo mér finnst best að mala þær mjöööög smátt.

  4. Setjið hestlihneturnar svo í stóra skál og blandið kryddunum útí.

  5. Þegar sellerírótin og laukurinn er orðinn mjúkur tökum við aftur fram matvinnsluvélina og maukum sellerírótina saman við laukinn þar til áferðin er eins og slétt sellerírótarmús.

  6. Því næst er öllu blandað saman í skálinni og svo smakkað til! Bragðið er mjög líkt því bragði sem þið munuð finna af steikinni eftir bökun svo ekki vera feimin að salta extra, maður vill finna sellerírótarbragðið í gegn því það er hátíð í munni.

  7. Maukið sett í form og bakað í ofni á 175 í ca 35 min.

Má frysta?

Já! Við gerum hana alltaf fyrir jól, frystum, og hitum svo upp a aðfangadag.

Verði ykkur að góðu og gleðilega hátíð.

Previous
Previous

Sæt hátíðarmús

Next
Next

Heavy metal detox smoothie með brokkólíspírum