Barnaafmæli, Róbert 5 ára

Loksins varð Róbert "litli" 5 ára. Það er svo gaman að fylgjast með því hvernig tilhlökkunin við að eiga afmæli eykst með hverju árinu hjá honum. Það átti auðvitað að vera veisla og afmæliskaka. Ég viðurkenni að ég var orðin stressuð um að þurfa að svíkja hann um veislu vegna veikinda minna. Heppnin var með Róbert mínum og með smá skipulagi og aðstoð hófst þetta og meira að segja komust alveg þónokkrir gestir þrátt fyrir veislu í júlí. Ég bauð uppá brauðsalöt, súrdeigsbrauð, hummus, allskonar pestó, brauðrétt, afmælis"köku", kex, ávexti, kókoskúlur, popp, saltstangir og hvolpasveitanammi. Ég valdi veitingar sem ég gæti undirbúið daginn áður og sem pössuðu vel með brauði sem ég keypti svo að morgni veisludags.

Ég græjaði tvö mismunandi brauðsalöt með tófúi, karrýsalat með tófú, uppskrift hér og svo prófaði ég að gera salat sem heitir "gubbröra", hljómar hræðilega á íslensku en þetta er sænskt sumarlegt jógúrtsalat og er örugglega líka æðislegt með grillaðri kartöflu, set link að uppskrift hér.

Ég útbjó fyllingu í aspasbrauðrétt líka daginn áður sem ég setti svo bara í eldfast mót daginn eftir ásamt niðurskornu brauði og skellti í ofninn áður en afmæli byrjaði.

Mamma gerði hummus og grænt pestó og svo keypti ég bruchetta mix og aðra svipaða krukkusósu.

Kókoskúlurnar dundaði ég mér svo við að rúlla kvöldið áður yfir tónleikum í sjónvarpinu.

Afmælis"kakan" var svo jólaeftirrétturinn okkar. Róbert fékk að smakka hann síðustu jól og var mjög hrifinn. Hann er ekki alveg sykurlaus en hann er hollari en bragðlaukarnir vilja meina. Hér er uppskrift að honum. Ég gerði haframulninginn daginn áður og hefði í raun getað gert kökuna tilbúna ef ég hefði haft pláss í ísskápnum en þessi eftirréttur er svona sem verður betri daginn eftir.

Þetta hljómar kannski eins og heljarinnar undirbúningur en með ljúfa tóna í eyrunum og börnin í dekri hjá ömmu og afa þá var þetta akkurat það sem ég þurfti. Að dúllast í eldhúsinu er ákveðin hugleiðsla fyrir mig.

Mesta málið var kannski að ferja matinn svo til mömmu og pabba þar sem veislan var haldin.

Það sem átti eftir að gera á sjálfan veisludaginn var þá í raun bara að kaupa brauðin, skera niður ávexti, þeyta og blanda í rjómann til að klára "kökuna", hella poppi í pappaglös, setja brauðréttinn í ofninn og raða þessu svo smekklega upp.

Róbert var ljómandi glaður með daginn, veðrið hélst þurrt og sköllótta ég náði heldur betur að hnýta klútinn eins og alvöru skúringakona frá 1970.

Previous
Previous

Jólin mín

Next
Next

Vegan og sykurlaus barnaafmæli, Róbert 3 ára.