Karrý tófúsalat
Ég fæ stundum spurningu um hvort sé í lagi að borða tófú “hrátt”. Ójá það er sko í góðu lagi og er það einmitt alveg tilvalið að nota í ýmis brauðsalöt. Það gefur salatinu fyllingu og gerir það auk þess próteinríkt. Hér er karrýtófúsalat sem ég geri aftur og aftur og mögulega á ég það til að tvöfalda uppskriftina. Salatið er tilvalið sem svona klassískt brauðsalat með brauði og kexi á veisluborði en er líka gott á sumarhlaðborðið með bökuðu kartöflunni eða á ristað brauðið sem fljótleg máltíð. Það er kannski einfaldara að segja bara að það sé gott með ÖLLU.
Þú þarft:
1/2 askja oatly sýrður rjómi (í svörtu öskjunni)
1/2 dolla vegan mæjónes (miðast við 1 dollu krónu mæjónes)
1 msk karrý
1/2 stykki tófú (ca 225 gr)
1/2 rauð papríka
1/2 rauðlaukur
2 stórar súrar gúrkur
1/4 tsk hvítlauksduft
1/4 tsk papríkuduft
ca 10 gr graslaukur
Salt eftir smekk, mér finnst æði að nota jurtasalt
Aðferð:
Tófú vafið inní viskustykki eða eldhúspappír og vökvinn pressaður úr með því að leggja eitthvað þungt lagt ofaná og látið standa í smá stund eða bara einfaldlega kreysta tófúið með höndunum.
Tófú og grænmetið skorið smátt og öllu blandað saman.
Verði ykkur að góðu.