Lífstíll eða óheppni?
Það að greinast með krabbamein er gríðarlegt áfall. Þú ert allt í einu sjúklingur sem þarft að stóla á lyf og lækni til að lifa af. Orð læknisins er það sem gildir núna og von þín og bjartsýni stjórnast mikið af því sem læknirinn segir.
Þegar þú greinist með krabbamein er þér sagt að þú sért "óheppin/nn" og að þú hefðir ekki getað gert neitt til að koma í veg fyrir þetta. Þetta er vissulega rosalega frelsandi á ákveðinn hátt og kemur í veg fyrir að þú brjótir þig niður á að hafa ekki lifað lífinu einhvern vegin öðruvísi. Þetta auðveldar þér að sýna þér mildi og mögulega er eitthvað til í þessu. Mögulega eru sumir bara ógeðslega óheppnir. En að lokinni krabbameinsmeðferð bankar heilsukvíðinn uppá og ég upplifi þetta alls ekki jafn frelsandi.
Get ég aftur orðið óheppin?
Ég hef verið að burðast með ákveðnar vangaveltur sem mér finnst ég þurfa að losa um. Á sama tíma hef ég ekki þorað að birta þessar vangaveltur mínar þar sem þetta er mjög viðkvæmt málefni. Flestir þekkja einhvern sem dáið hefur úr krabbameini og er ætlun mín aldeilis ekki að gera lítið úr þessum sjúkdómi, krabbamein eru mörg og mismunandi og vissulega eru alltof margir sem draga stutta stráið sem er ekkert nema ömurlegur harmleikur.
Síðan í febrúar, eða frá því ég byrjaði í lyfjameðferð, hef ég nýtt mér þjónustu Ljóssins og Krafts og fundið hversu mikilvægur jafningjastuðningurinn er. Þú kynnist allskonar einstaklingum sem eru að glíma við krabbamein og sem betur fer kemst stór hluti í gegnum verkefnið. EN á þessu tímabili kynntist ég líka ungum stúlkum sem greindust aftur stuttu eftir að hafa klárað og féllu frá óhugnanlega fljótt.
Ungar mæður með ung börn. Ég tárast bara við að hugsa til þeirra. Það er ekkert nema óréttlátt og hryllilegur harmleikur og fjölskyldur þeirra eiga alla mína samúð. Þær staðfestu það að það er hægt að verða óheppin/nn aftur...
Fráfall þeirra hefur óneitanlega haft áhrif á mig og hræðslan við að greinast aftur er óumflýjanleg.
í tilraunum mínum til að slökkva þennan ótta hef ég leitað mér upplýsinga og einnig kynnt mér óhefðbundnari aðferðir. Ó hvað ég vildi að ég hefði vitað margt af því sem ég veit núna aðeins fyrr.
Það er ekkert leyndarmál að lífstíll getur haft mikil áhrif á þróun krabbameins, það getur verið allt frá matarræði, streitu, neikvæðum hugsunum, umhverfisþáttum, áföllum o.fl.
Þegar þú greinist er aðeins spurt út í það hvort þú reykir og hvort þú hafir verið hraust/ur fyrir. Það segir í raun voðalega lítið um lífstílinn sem maður lifir, í raun bara alls ekki neitt.
Myndi vera hægt að koma í veg fyrir að verða óheppinn aftur með því að skoða lífstíllinn nánar? Lífstílinn sem maður lifði þegar maður greindist í fyrsta sinn. Átti þessi lífstíll þátt í að rugla frumurnar mínar?
Að mínu mati mætti skoða sjúkdóma frá meira heildrænu sjónarmiði. Ég á allavega erfitt með að kyngja því að ég hafi bara verið óheppin og innsæið segir mér annað.
Væri ekki allt í lagi að kryfja lífstílinn aðeins betur, sérstaklega ef ekkert bendir til þess að erfðir eigi í hlut? Ég segi ekki að það sé auðvelt enda gífurlega margir þættir sem spila inn í en mér finnst eitthvað bogið við það að segja að við séum bara óheppin. Erum við í vestrænum ríkjum þá bara óheppnari en aðrir í öðrum heimshornum þegar það kemur að krabbameini???
Það yrði vissulega erfitt að kyngja því að maður hefði getað komið í veg fyrir krabbameinsgreininguna EN myndi það ekki gefa okkur ákveðið vald til að hafa meðferðis að lokinni krabbameinsmeðferð ef allt fer á besta veg? Valdið til að gera breytingar á því umhverfi og lífstíl sem mögulega olli sjúkdómnum. Það er nefnilega óneitanlega erfitt að útskrifast úr krabbameinsmeðferð með ekkert í höndunum og fara aftur til baka í nákvæmlega sama lífstíl aftur. Heilsukvíðinn minnir þig reglulega á að þú gætir orðið "óheppin/nn" aftur.
Læknisfræðinám er gríðarlega langt og strembið og það er óraunhæft að segja að læknar ættu að vera með öll svörin og í raun eru forvarnir ekki á þeirra borði. Læknar eru frábærir í að greina veikindi eða sjúkdóma og eru sérfræðingar í að finna hvernig hægt sé að lækna þá með lyfjum, en þeir eru fyrst og fremst lyflæknar. Ég upplifði mig í rosalega öruggum höndum hjá mínum lækni og hún er virkilega fær í sýnu starfi.
Læknavísindin eru frábær á sinn hátt og verð ég þeim ævinlega þakklát, en án þeirra hefði elsku besti Róbert okkar sem fæddist með hjartagalla ekki verið með okkur í dag. En læknavísindin eru sniðin að neyðarúrræðum en þau eru ekki alltaf eina úrræðið.
Traustið til læknavísindanna er svo mikið að fólk verður oft skeptískt ef einhver nefnir náttúrulækningar, eða annarskonar óhefðbundnari lækningaraðferðir. Í sumum löndum vinna t.d. grasalæknar og krabbameinslæknar saman. En hér á landi þarftu einhvern vegin að velja annaðhvort eða.
Það er mikilvægt að gleyma því ekki að forvarnir skipta máli þegar það kemur að heilsu okkar. En eins og ég sagði áðan þá liggja forvarnir ekki á borði lækna og eru forvarnir alfarið í okkar höndum.
Það hefur aðeins meira borið á því að við tölum um ákveðið "eiturefnaglas" sem við fæðumst með, við fæðumst með mismikið af eiturefnum í okkur en í dag erum við útsett fyrir mun fleiri eiturefnum en áður. Í umhverfisverkfræði tímum í HÍ lærði ég um þrávirk lífræn efni í umhverfinu sem safnast upp í t.d. sjávardýrum (á einnig við um aðrar lífverur og fólk). Því ofar í fæðukeðjunni því meira af þrávirkum lífrænum efnum. Þetta eru nefninlega eiturefni sem líkaminn getur ekki losað sig við sjálfur. Við heyrum að ófrískum konum er ráðlagt að passa sig á sushi, ekki bara af því að fiskurinn er hrár heldur út af háu magni af kvikasilfri í túnfiski. Eiturefni, þungmálmar og þrávirk lífræn efni tökum við inn í gegnum húðina, í gegnum fæðu og í gegnum öndun og það er erfitt að líta framhjá því gríðarlega magni af eiturefnum sem dælt er í okkur í krabbameinslyfjameðferðum. Uppsöfnun eiturefna í líkamanum getur verið uppspretta heilsukvilla og misalvarlegra sjúkdóma. Eftir krabbameinsmeðferð glíma margir við aukaverkanir sem skerða líf viðkomandi. Þó er aldrei talað um að mikilvægt sé að aðstoða líkamann við að losa sig við uppsöfnuð eiturefni.
Meltingarkerfið í mér fór illa út úr lyfjameðferðinni og var ég komin á lyf við magabólgum sem önnur stoðlyf höfðu valdið. Ég þyngdist líka um 10 kg sem er mikið fyrir mig og innri fita komin yfir viðmiðunarmörk. Krabbameinslyfjameðferð ræðst ekki bara á allar frumur líkamans heldur þornar slímhúð líkamans upp. Öll starfsemi raskast og þar með þarmaflóran. Léleg þarmaflóra er einnig uppspretta annarra lífstílssjúkdóma. Er ekki galið að það sé ekki heldur hluti af endurhæfingunni að koma henni í lag?
Endurhæfingin eins og hún er byggð upp í dag snýr aðallega að því að ná upp eðlilegu þoli og styrk og svo eru námskeið til að efla andlegu hliðina. Það er auðvitað mjög mikilvægt en alls ekki nóg. Ég þrái ekkert meira en að endurheimta eðlilega líkamsstarfsemi svo hreinsun er allavega stór hluti af minni endurhæfingu og hef ég eytt miklum tíma undanfarna mánuði í að lesa mig til um það hvernig ég hreinsa líkamann og styð sem best við þau líffæri sem hafa þurft að þola mest. Krabbameinslæknirinn þinn er samt aldrei að fara að segja þér að þú þurfir að gera einhverskonar hreinsun.
Það er eins og það vanti einn risastóran púslkubb, mögulega mikilvægasta kubbinn, til að klára ferlið svo hægt sé að endurheimta heilsuna.
Þegar ég hugsa um minn lífstíl þá hef ég alltaf verið meðvituð um mataræði og borðað nokkuð hollt, aldrei nokkurn tíman hélt ég að ég myndi fá krabbamein. Það er jú innbyggt í okkur þetta "það kemur ekki fyrir mig" hugarfar. Um leið og ég greinist ætlaði ég ekki að trúa því en á sama tíma fann ég fyrir mjög skýrum skilaboðum innra með mér um að kvíði og streita hafi átt þátt í mínu krabbameini. Tímasetning og tilfinning við greiningu gerði það svo skýrt og mér fannst ég verða að hlusta. Stuttu áður en ég greinist hafði ég hlustað á viðtal við Guðna Gunnarsson í hlaðvarpsþætti hjá Snorra Björns þar sem hann talar um að við lendum í áföllum þangað til við lærum að lifa með sjálfum okkur. Þetta poppaði svo sterkt upp í höfðinu á mér við greininguna og ég vissi samstundis að ég þyrfti að hlusta á þau skilaboð sem verið væri að reyna að segja mér. Stuttu eftir að ég greinist horfi ég svo á mynd sem heitir "the Wisdom of Trauma". Myndin tekur svo óvæntan vinkil og kemur inná krabbamein þar sem jákvæður árangur næst með meðferð við áföllum við annars ólæknandi krabbameini.
Innsæistilfinningin mín styrktist enn frekar og mér fannst hún gefa mér ákveðinn styrk. Mér fannst ég vita hvert verið var að leiða mig. Ég veit að ég þarf að kíkja inná við og finna það út hvernig ég get tæklað streitu og kvíða betur og fundið betra jafnvægi innra með mér í þessum nútíma heimi. Hvernig ég geri það er svo annað mál en það er hluti af minni endurhæfingu að finna út úr því og ég vona að ég sé á réttri leið.
Það sama á við með uppsöfnuðu eiturefnin í mér, ég hef örugglega aldrei verið jafn áhugasöm að lesa mig til um náttúrulegar aðferðir til að hjálpa líkamanum mínum að endurheimta sig. Það að vera meðvituð um þessa uppsöfnun gefur mér eitthvað til að vinna með. Mögulega er það kvíðavaldandi fyrir suma en í mínu tilfelli er það þveröfugt. Mér finnst ég vera að endurheimta valdið yfir heilsu minni og það veitir mér einhverskonar sálarró að finna að ég er að hjálpa líkamanum mínum að endurheimta sig og ég upplifi þetta á sama tíma sem forvörn sem róar heilsukvíðann minn við að greinast aftur.
Þetta eru mínar vangaveltur síðustu daga (lesist mánuði). Ég er sannfærð um að hægt sé að gera betur fyrir einstaklinga sem greinast með krabbamein. Á sama tíma samhryggist ég öllum þeim sem misst hafa ættingja eða vini úr þessum vágesti, það er alltof mikið af frábæru fólki sem greinast með krabbamein, ef þið bara vissuð hvað ég hef kynnst mörgu kláru, jákvæðu og skemmtilegu fólki í gegnum þetta verkefni. Ég hefði virkilega ekki komist í gegnum þetta tímabil án þeirra.
Hvað vil ég með þessum pistli?
Mögulega skrifa ég þetta aðallega til að létta á mér þar sem þessar vangaveltur hafa valdið mér hugarangri í langan tíma núna en kannski einnig til að sá fræi. Mögulega til að gleyma ekki þessum vangaveltum þar sem mér finnst þær mikilvægar. Kannski til að komast í samband við fleiri sem hafa pælt í þessu, mögulega til að komast nær lausn til að skapa þennan púslkubb sem vantar. Mögulega til að vekja athyggli á að læknavísindaheimurinn þyrfti að tala betur við óhefðbundnari aðferðir þar sem mögulega yrði lækningamátturinn enn sterkari þannig og endurhæfingin skilvirkari.