Túrmerik (Curcumin)
Það er greinilegur áhugi hér fyrir lækningarmætti túrmeriks miðað við viðbrögðin sem ég fékk eftir story þar sem ég fór aðeins inná lækningarmátt fæðu og deildi innsendum reynslusögum frá ykkur þar sem túrmerik hafði komið við sögu. Það er alltaf svo æðislegt að heyra reynslusögur frá fólki sem hefur verið kvalið eða að díla við sjúkdómseinkenni sem hafa náð árangri með þessum hætti og eflaust dýrmætt fyrir fólk að heyra sem er að upplifa svipuð vandamál og er leitandi að einhverju sem gæti hjálpað.
Ég ákvað því að taka saman smá upplýsingar um túrmerik og ráðleggingar hvernig túrmerik er gott að velja og hvernig er best að taka það inn.
Lesið til enda ef þú ert í krabbameinsmeðferð eða á blóðþynnandi lyfjum.
Túrmerik (curcumin)
Í stuttu máli er flest Túrmerik frábært og getur verið áhrifaríkt á hvaða formi sem það er. Hægt er að kaupa ferska túrmerik rót en einnig er hægt að finna það í duftformi í kryddhillunni eða í hylkjum á ýmsum stöðum.
Virka efnið í túrmeriki, það sem gerir galdrana, sem við erum í raun að sækjast eftir heitir Curcumin. Mismunandi túrmerik getur svo innihaldið mismikið af curcumin.
Flestir hafa heyrt að túrmerik sé bólgueyðandi sem það er en það sem kannski er ekki alveg jafn augljóst er að bólgur spila stórt hlutverk í sjúkdómum eins og krabbameini, hjartasjúkdómum, alzheimer, efnaskiptasjúkdómum og fleiri alvarlegum veikindum og getur curcumin því verið mörgum til gagns.
Forsendur og væntingar
Hvaða túrmerik er best fyrir þig? Ég mæli aldrei með að hlaupa útí búð og kaupa það sama og einhver annar bara afþví hann keypti þetta.
Það er mikilvægt að fara yfir sínar forsendur,
Ertu að díla við krabbamein? Ertu hráð/ur af gigt? Eru bólgur að hafa áhrif á lífsgæðin? eða eitthvað annað sem þig langar að athuga hvort túrmerik gæti virkað vel á.
Langar þig til að taka túrmerik í fyrirbyggjandi skyni, af forvitni eða langar að byrja að bæta því inní líf þitt í t.d matargerð því þú veist að það geti verið gott fyrir heilsuna?
Svo getur fjárhagur auðvitað spilað inní á hvaða formi er best að kaupa það því túrmerik eða curcumin á bætiefnaformi getur oft verið dýrara.
já eða einhverjar allt aðrar ástæður….
Hverju mæli ég með?
Ef þú ert að díla við alvarleg veikindi eins og krabbamein eða einhverskonar bólgusjúkdóm og vilt markvisst nýta eiginleika curcuminsins til að hjálpað þér þá viltu taka mjög öflugt túrmerik og helst túrmeik sem berst beint til frumnanna. Túrmerik frá S-Ameriku inniheldur meira magn af curcumin heldur en túrmerik frá t.d. Asíu. Hérlendist fæst aðallega túrmerik frá Asíu en Arnbjörg Linda grasalæknir/nálastungur er með hreint curcumin sem unnið er úr túrmerik frá S-Ameriku og er blandað á sérstakan hátt svo það komist inní frumurnar með hjálp fitubera. Það heitir Biocur hjá henni og ég hugsa að þetta sé það öflugasta á markaðnum sem ekki þarf að sérpanta. Ég tek sérpantaða útgáfu af þessu sem heitir Lipocur.
Þetta er sú tegund curcumins sem ég vel fyrir mig og myndi mæla með fyrir aðra í sömu stöðu.
Af síðunni hjá Lindu: “Biocur”
Öflugt bólgueyðandi og verkjalosandi.
Við allri gigt, er lifrar- og hjartaverndandi.
Kemur í veg fyrir Alzheimerssjúkdóm, minnkar þríglýseríð, þynnir blóðið og stuðlar að langlífi.
Uppspretta curcuminoids, sem eru talin virka gegn krabbameini (æxliseyðandi fjölgun), prebiotic trefja, arabínógalaktana.
Eykur minni og athyglisgetu og hjálpar gegn þunglyndi.
Meira um vöruna hér.
Arnbjörg Linda er stödd í Dugguvogi 10, 2 hæð.
Ef þú ert ekki að díla við sjúkdóm eða veikindi þá er kannski ekki þörf á að velja jafn sterkt cucumin og gæti túrmerik frá t.d kryddhúsinu verið frábært í matinn eða í turmerik latte (golden milk), tropic.is selur líka t.d. skemmtilega tilbúna túrmerik latte blöndu. Svo er hægt að kaupa túrmeik frá ólíkum merkjum í hylkjum í bætiefnadeildum matvörubúða eða heilsubúða þegar maður vill hafa þetta einfalt.
Svartur pipar eflir virkni túrmeriksins, gerir það “aðgengilegra”, svo það er ágætt að hafa það í huga. Ef þú kaupir hylki er oft svartur pipar í hylkjunum en ekki alltaf svo það er hægt að skoða við val á hylkjum.
Hvernig er best að taka inn túrmerik.
Ferska túrmerik rót getur verið þægilegt að djúsa og fer hún vel með gulrótum í ferskum gulrótarsafa. Það þarf rosalega lítið því hún er svolítið eins og engifer og getur tekið yfir bragðið. Einnig er hægt að setja hana útí búst, það er líka hægt að rífa hana niður útí matinn en ég kýs frekar að nota túrmerik í duftformi í matinn því ég næði gula litnum sennilega aldrei af puttunum annars.
Túrmerik er brjálæðislega gult á litinn og það næst erfiðlega af hlutum svo í guðan á bænum passið borðplötuna ykkar og fötin og ... já djúsvélin verður gulari. Ég tala mögulega af reynslu og mögulega sullaði ég túrmeriki á nýjustu peysuna mína bara síðast í gær. Þetta er algjör svona “love-hate” jurt haha.
Túrmerik á duftformi er hægt að nota í mat, smoothie, túrmerik latte, kaffið, útí vatnið, á salatið í dressinguna, já bara allt. Hylki er hægt að gleypa eins og hvert annað hylki en einnig hægt að losa úr hylkinu útí vatn eða smoothie til tilbreytingar.
Curcumin er fituleysanlegt svo það getur verið gott að taka túrmerik/curcumin með góðri fitu, fitan ber virka efnið til frumnanna og hefur það verið tryggt í Biocur hylkjunum sem ég nefndi hér að ofan, en þar er curcumininu blandað við fitubera úr jurtaríkinu sem kemur því auðveldar inní frumurnar. Ef þið veljið aðra tegund af curcumin er gott að taka það inn með máltíð sem inniheldur góða fitu.
Ágætt er að byrja smátt og svo auka skammtinn með tímanum því curcumin getur verið sterkt fyrir viðkvæma maga og sumir geta fundið fyrir vægum brjóstsviða ef túrmerik byrjað er á stórum skammti.
Auka upplýsingar til öryggis.
Ég mæli alltaf með að kynna sér öll bætiefni eða jurtir sjálf sem þið ætlið að taka inn í lækningarskyni en afþví ég veit að það eru margir sem fylgja mér sem eru annað hvort í krabbameinsferli eða eiga ástvin í því verkefni þá vil ég bæta nokkrum atriðum við sem gagnast þeim og sem gott er að hafa í huga til öryggis.
Rannsóknir hafa sýnt að curcumin hefur virkað gegn mörgum tegundum af krabbameins stofnfrumum, þessar sem stýra öllu sem gerist í meininu. Curcumin hefur einnig bólgueyðandi áhrif en krabbamein elskar bólgur svo þetta er bætiefnið sem ég tek daglega og hef mikla trú á að hjálpi mér í minni vegferð.
Fyrir þá sem vilja taka inn túrmerik meðfram lyfjameðferð þá er ekki mælt með að taka inn túrmerik á degi lyfjagjaafar, hina dagana myndi ég sjálf velja að taka það og hafa rannsóknir sýnt að túrmerik og lyfjagjöf virki vel saman. Auðvitað er alltaf talað um að ráðfæra sig við lækninn sinn áður en eitthvað er tekið inn samhliða lyfjagjöf... og ég mæli ekki gegn því og best er að láta lækninn vita af því svo allt sé uppá borðinu, en án þess að alhæfa þá er það því miður oft þannig að manni er frekar ráðlagt að sleppa því ef læknirinn hefur ekki kynnt sér þetta, sem er oft raunin, því þeirra sérhæfing nær ekki yfir jurtir eða annarskonar náttúruleg bætiefni. Hvet ykkur eindregið til að kynna ykkur curcumin betur og gera það sem þið teljið réttast fyrir ykkur.
Annað sem getur verið gott að vita af er að túrmerik/curcumin getur haft blóðþynnandi áhrif svo það er líka ágætt að hafa í huga ef aðili er á leið í aðgerð (skurðaðgerð/lyfjabrunnsígræðslu) eða annarskonar inngrip eða ef aðili er nú þegar á blóðþynnandi lyfjum.
Uppskrift - Mildur Túrmerik Latte
2 dl jurtamjólk.
1/4 tsk túrmerik í duftformi eða meira.
1/4 tsk kanill
1/2 tsk hlynsíróp
1 tsk kókosolía eða kakósmjör
1/8 tsk vanilluduft
hnífsoddur svartur pipar
smá chili (valfrjálst)
oggulítið himalayasalt
Aðferð:
Hitið mjólkina í potti og hrærið kryddunum útí. Ef þið notið flóanlega mjólk er voða spari að flóa hana örlítið.
Fyrir kraftmeira bragð, aukið magnið af túrmerik og chili.
Einnig er hægt að nota heimagerða kanil möndlumjólk, uppskrift hér, en hún er krydduð og sæt svo þá er hægt að sleppa kanil og hlynsírópinu í uppskriftinni hér að ofan.
Inná instagramminu, linkur hér, er líka þessi æðislega uppskrift í videoinu fyrir ofan af Túrmerik íslatte sem er fullkominn í góðu gluggaveðri ;). Hér nota ég tilbúna túrmerik latte blöndu frá tropic.is og var þessi uppskrift gerð í samstarfi við tropic árið 2020.