Að þora að fylgja innsæinu…
Í gær fékk ég niðurstöður úr jáeindaskannanum sem ég fór í í síðustu viku. Niðurstaðan var að meinið hefur minnkað og sömuleiðis virknin. Verkefnið heldur áfram EN þetta voru bestu fréttir sem ég gat nokkurn tíman óskað mér. Því nú er ég ekki lengur hrædd við meinið og ég veit hvernig ég klára það… sjálf! Hversu langan tíma það tekur að verða laus við meinið veit ég ekki en það er aukaatriði.
Rétt fyrir jól fékk ég þær fréttir að krabbameinslyfjameðferðin sem ég fór í hefði ekki skilað árangri og að meinið hefði tekið sig upp aftur, agressívt. Ég fékk taugaáfall inni hjá lækninum... og öll viðbrögð mín voru samviskusamlega skráð niður. Ég komst að því seinna þegar ég bað um að fá aðgang að sjúkraskránni minni.
Ég var í engu standi til að taka neina ákvörðun á þessari stundu, engin góð ákvörðun er tekin undir ofsahræðslu, og sagði ég lækninum mínum að ég þyrfti að fara heim að anda og við ákváðum að bóka símatíma eftir viku.
Þessi vika fór í örvæntingafulla heimildarvinnu! Ef það er einhvertíman sem maður tekur „hraðnám“ þá er það þegar manni er stillt svona upp við vegg og líf manns í húfi. Ég var búin að prófa að treysta á lyf sem áttu að lofa mér 90% líkum á lækningu, en þau brugðust mér. Önnur lyfjameðferð eða hvað annað sem tæki við innan spítalanna hræddi mig óendanlega mikið. Ég hef aldrei getað keypt það almennilega að ég hefði bara verið óheppin að greinast með krabbamein eins og læknarnir vildu meina og ég var búin að sjá mikið um það hvernig áföll, streita, kvíði og fleira getur orsakað krabbamein. Það var eitthvað innra með mér sem sagði að ég þyrfti að staldra við og skoða mína stöðu heildrænt, hvað gæti hafað orsakað þetta krabbamein mitt, hvað gæti hafa skapað þetta ójafnvægi innra með mér sem ruglaði frumurnar og hver var tilgangurinn með því? Hvað á að ég að læra af þessu?
Ég ákvað því að taka mjög svo scary ákvörðun að hlusta á innsæið og fara óhefðbundna leið í að læknast, sem kemur kannski engum á óvart þar sem ég tolli sjaldan inní norminu. Ég var búin að prófa að fara í brútal stríð við líkamann minn sem mér leið aldrei vel með og virkaði svo ekki. Mig langaði að prófa að vera núna með líkamanum mínum í liði. Ég tók mér frí frá spítalanum í 3 mánuði og bað lækninn að hafa ekki samband við mig á meðan. Ég bað hana samt að bóka nýjan jáeindaskanna fyrir mig eftir þessa 3 mánuði. Ég kúplaði mig líka útúr öllu umhverfi þar sem krabbamein barst í tal.
Ég var auðvitað skíthrædd í byrjun og var það í raun ástæðan fyrir því að ég hætti að deila með ykkur ferlinu. Ég vildi ekki að neinn gæti látið mig efast, ég þurfti að teysta algjörlega á mig og mína ákvörðun.
Mér leið mjög vel þar til um miðjan mars, því þá var farið að styttast í jáeindaskannan og ég fann hvernig kvíðinn stigmagnaðist. Síðasta vika hefur verið hryllingur, kvíðinn fyrir skannann er einhver sá versti kvíði sem ég hef kynnst og kvíðinn fyrir það að fá niðurstöður frá lækninum, sérstaklega eftir mitt taugaáfall síðast var bara ólýsanlega taugatrekkjandi. Það tengja sennilega allir sem hafa greinst með mein við þessa tilfinningu. Þessar niðurstöður voru að fara að skera úr um það hvort vinnan síðustu 3 mánuði hefði borið árangur eða ekki. Líkaminn byrjaði að búa til svo mikið af furðulegum einkennum, meðal annars verki í bringu, dofa niðrí fót og andþyngsli ásamt því að ónæmiskerfið fór í frí og ég fékk mikinn hósta. Ég var orðin hrædd að vera ein. Á þriðjudeginum, daginn fyrir læknatímann, rölti ég í sund til að hitta manninn minn og börn, ég labba fram hjá Árbæjarkirkju og ég fann hvernig mig langaði bara að setjast þangað inn og biðja bæn. Ég þorði ekki inn og í staðinn brotnaði ég bara niður og hágrét sem er svona lýsandi dæmi um það hversu viðkvæmt taugakerfið verður, bara lítil hugsun með undirliggjandi þrá um meðbyr og von triggerar allt kerfið af stað. Sundferðin varð endurnærandi og hjálpaði mér að dreifa huganum og ég náði að detta í spjall við vinaleg andlit, en elsku Árbæjarlaug hefur verið minn griðarstaður síðustu mánuði og mér líður bara alltaf vel þar.
Að fá niðurstöðurnar var því ofboðslega mikill léttir og mikilvæg staðfesting fyrir mig. Staðfesting um að leiðin sem ég valdi sé að bera árangur. Þrátt fyrir að hafa trúað því allan tíman að ég væri að gera rétt fyrir mig, orkan hefur verið frábær og ég lít bara alls ekki út fyrir að vera veik, þá hef ég ekki getað gert nein plön og bara ekki einu sinni getað hugsað lengra en að þessari dagsetningu. Þetta er semsagt það sem er að frétta af mínu ferli síðustu 3 mánuði. Þetta er ekki búið en nú veit ég svo sannarlega hvernig ég held áfram, ég mun gera nákvæmlega það sama og ég hef gert síðustu 3 mánuði nema nú mun ég treysta ferlinu enn betur og skilja óttann eftir.
Ég viðurkenni að þetta hefur verið svona sirka 200% vinna, þetta hefur verið dýrt og ég hef prófað ýmislegt, sumt sem hefur gagnast mér og sumt sem ég þurfti að prófa til að finna að það væri ekki fyrir mig.
Þetta er mín vegferð sem virðist vera að virka fyrir mig. Ég hef óbildandi trú á henni en það er held ég það mikilvægasta af öllu, að hafa trú á sinni lækningarleið, hvort sem valin er lyfjaleið, óhefðbundin eða blanda af báðum. Ég hef komist að því að það er margt hægt að gera sjálfur og líkaminn er magnaður og það er virkilega valdeflandi að taka virkan þátt í sinni batavegferð.
Ég veit að nú eru örugglega margir sem vilja vita nákvæmlega allt sem ég hef gert. Það er því miður ekki til ein töfrapilla. Ég hef hugsað mikið útí það hvernig ég eigi að deila því. Það er svo ótrúlega margt úr þessu ferli sem mig langar til að deila með ykkur, en á sama tíma er þetta svo ofboðslega vandmeðfarið. Það er mikilvægt að passa að þeir sem velji lyfjameðferð missi ekki trú á henni, því hún virkar fyrir marga. Það er mikilvægt að gefa ekki falska von því það þarf að mörgu að huga (þó ég myndi ráðleggja þér að flýja lækninn þinn ef hann tekur frá þér vonina!). Það er auðveldlega hægt að opna gömul sár þeirra sem kannski hafa misst nákominn ættingja eða hafa glímt við sjúkdóminn sjálfan. Það er mikilvægt að skoða forsendur hvers og eins! Það er mikilvægt að skoða hvort aðili sé í lyfjameðferð, þá í hverskonar lyfjameðferð og hverskonar mein er verið að díla við til að tryggja að ekki verði víxláhrif á lyfin og fleira. Það sem ég er að gera getur verið óraunhæft og streituvaldandi fyrir einhvern annan sem vinnur þvert á móti bata. Það getur einnig verið kvíðavaldandi fyrir suma að kynna sér óhefðbundar leiðir því stundum afhjúpast neikvæðar upplýsingar í sambandi við aðferðir raunvísinda og er mikilvægt að geta horft fram hjá þeim í mörgum tilfellum og er það ekki alltaf auðvelt.
En engar áhyggjur ég ætla sko ekki að halda öllu því sem ég hef lært og gert útaf fyrir mig, mig langar að deila því með sem flestum en á ábyrgan hátt. Gefið mér smá tíma til að finna út hvernig ég geri það….
…en þangað til, þá eru hér nokkur heilræði frá mér
Það skiptir máli hvað maður setur oní sig
Það skiptir máli hvað maður hugsar
Það skiptir máli að vinna úr tilfinningum
Það skiptir máli að setja sig í fyrsta sætið
Takk fyrir að sýna ferlinu mínu áhuga og fyrir alla góðu straumana sem ég finn svo innilega frá ykkur fylgjendum.
Fljölmiðlum er ekki heimilt að birta efni greinarinnar.