7 ára afmælisveisla Róberts

Róbert okkar á afmæli í dag, 27 júli, um hásumar þegar flestir eru í fríi. Litla óvissan sem fylgir sumarafmælum. Verðum við í borginni eða í útilegu? og svo hinn þátturinn, ætli einhver verði í borginni ef við höldum veislu? Við höfum verið ótrúlega heppin síðustu ár að yfirleitt komast mun fleiri en við þorum að vona okkur til mikillar gleði.

Með litlum fyrirvara ákváðum við að vera í borginni, halda veislu hjá mömmu og pabba í gær, á eina sólardegi helgarinnar inná milli rigningardaganna og leigja hoppukastala sem er orðin smá hefð. Ég vona að vinkonum mínum sé sama að ég deili nokkrum myndum að börnunum þeirra en þau eru bara alltof miklar dúllur.

Í góðu veðri er hoppukastali algjör snilld ! Það kostar alveg smá en hverrar krónu virði. Stanslaust fjör fyrir krakkana, fullorðna fólkið getur setið úti og spjallað og áreitið einhvernegin dreifist. Tala nú ekki um þegar húsnæðið hentar kannski ekki alltof vel fyrir mörg börn sem vilja hlaupa um. Kannski í leiðinni smá sárabót fyrir það að fá ekki svona klassískt "bekkjarafmæli", sem fæst sumarafmælisbörn þekkja. Kastalann leigðum við hjá Skátalandi… með 2ja daga fyrirvara, við mælum með.

Mér finnst ótrúlega skemmtilegt að halda veislur og fer hugmyndaflugið á fullt að plana veitingar, ég elska umstangið í kringum það en ég elska líka að finna eitthvað sem er einfalt eða hægt að undirbúa daginn áður. Stundum geri ég allar veitingar frá grunni en í ár ákvaðum við að halda afmælið með 3ja daga fyrirvara svo ég ákvað að nýta mér aðkeyptar veitingar líka. Við pöntuðum Lemon samlokur, tvær týpur sem báðar eru vegan og 4 tegundir af djúsum sem sló heldur betur í gegn. Það er alltaf ákveðinn lúxus yfir ferskum söfum.

Ég vil taka það fram að ég er í stoltu samstarfi við Lemon en þú getur nú pantað rauðrófusmoothie-inn minn á matseðlinum þeirra undir nafninu “Beetlejuice”. ;)

Við vorum svo með niðurskorið grænmeti, ávaxtabakka og kókoskúlur, ég var með kosmoskúlurnar hans pabba og svo gerði ég hollari útgáfu af sænskum "Delicatobollar" sem eru svona kókos-kaffikúlur en ég þarf að deila uppskriftinni af þeim hér sem fyrst.

Ég keypti svo plöntubollur í ikea sem var bara hægt að hita í ofni og útbjó aiolli með þeim. Mamma steikti tortilla chips og gerði galinn hummus sem passaði líka vel að dífa grænmetinu í.

Afmæliskakan

Ég bakaði döðlukökuna af síðunni, nema mér fannst góð hugmynd að taka sénsinn og fara í tilraunastarfsemi til að gera hana glútenlausa sem heppnaðist sem betur fer vel.

Ég gerði svo smá auka tvist og bætti súkkulaðisósu úr kókosmjólk, kakó, hlynsírópi og hnetusmjöri útá kökuna, toppaði svo með jarðaberjum og bar fram með vegan rjóma.

Einnig vorum við með popp, kex, ávaxtastangir, rúsínupakka, saltstangir og litlar súkkulaðimuffins (smá tilraunastarfsemi þar líka og viðurkenni ég að önnur tilraunin smakkaðist betur en hin haha), ég mun halda áfram tilraunum á þeim og deila hér þegar ég er orðin fyllilega sátt. … vegan, glútenlaust og án unnins sykurs er orðin ný og skemmtileg áskorun en ekkert alltof auðveld.

Vonandi veitti þetta innblástur að barnaafmæli fyrir sumarfrísgorma.

Til hamingju með afmælið elsku Róbert okkar, litli hugmyndaríki, ljúfi, fallegi skaparinn okkar. Takk fyrir að gera mig að mömmu fyrir 7 árum og verða minn mesti kennari í lífinu. Elska þig endalaust.

Previous
Previous

Um hvað snýst veganúar?

Next
Next

Að þora að fylgja innsæinu…