“Wannabe” bingó kúlur

Mögulega varð þessi uppskrift til fyrir óralöngu… og ég skrifaði þessa færslu fyrir rúmu ári til að pósta en ég veit ekki afhverju ég póstaði henni ekki þá. Síðan þá hef ég byrjað að borða hollar að ég kunni ekki við það að pósta henni, fannst það ekki passa. Fæstum vantar innblástur af óhollustu eða hvað? haha.

En fyrst að uppskriftin er til og búið að mynda hana þá langar mig ekki að hún hverfi og hún er líka alveg soldið rosalega góð. Mér finnst kannski líka í lagi að varpa ljósi á það að þó maður sé vegan getur maður alveg saknað einhvers sem ekki er vegan. Það má og það þarf ekki að skammast sín fyrir það.

Svo hér kemur upprunalega færslan.

Það er ekki margt sem ég sakna síðan ég varð vegan en ég viðurkenni að ég sakna stundum bingókúla. Ég varð því að prófa hvort ég gæti ekki bara búið til vegan útgáfu af bingókúlum og ég varð bara hæstánægð með útkomuna. Nostrið við þetta nammi hefur svo þau áhrif að þú tímir ekki að borða það jafn hratt…. og varla að gefa með þér ef útí það er farið.

Þú þarft:

  • 1 plata suðusúkkulaði

  • 100 gr Tyrkispepper molar

  • 35-40 ml oatly visp rjómi

Aðferð:

  1. Byrjið á að bræða súkkulaðið yfir vatnsbaði.

  2. Hellið ca 3/4 af súkkulaðinu í konfekt mót, snúið mótinu á hvolf yfir skálinni svo umfram súkkulaði leki aftur ofan í skálina og komið svo fyrir inní fyrsti.

  3. Komið lakkrísmolunum fyrir í litlum potti og stillið á miðlungsháan hita. Molarnir byrja smátt og smátt að bráðna og fyrst festast þeir svolítið við botninn á pottinum. Hreyfið mjög reglulega við molunum.

  4. Bætið við pínulitlu magni af rjómanum í einu útí pottinn, ágæt tímasetning til að bæta rjómanum við er þegar molarnir eru farnir að klessast saman og festast við botninn.

    *Við viljum setja minna en meira af rjómanum í einu til að fylgjast með áferðinni á lakkrískaramellunni.

  5. Þegar molarnir hafa allir bráðnar og myndað þykka lakkrískaramellu”sósu” komum við henni fyrir ofan í konfektmótin með súkkulaðinu í.

  6. Hellið síðan restinni af súkkulaðinu í mótin til að loka molunum og leyfið að storkna inní ísskáp (það gæti þurft að velgja aftur uppí súkkulaðinu ef það hefur náð að þykkna á meðan karamellan var útbúin).

  7. Geymið í ísskáp.

Verði ykkur að góðu.

Previous
Previous

Salat með gulrótum, radísum, avocado og spírum borið fram með sinnepsdressingunni hans pabba

Next
Next

Kosmoskúlurnar hans pabba