Tahinidressing með döðlusírópi og balsamik
“Hvaða dressing er þetta?” er sennilega algengasta spurningin sem ég fæ á miðlinum þegar ég sýni salötin mín svo mér datt í hug að bæta við dressingum inná síðuna. Ég geri ekki alltaf sömu dressinguna en ég viðurkenni að tahini er langoftast uppistaðan í dressingunum. Ég á það til að fá dellur fyrir einni dressingu í einu og oftast verður hún óvart til og kemur mér skemmtilega á óvart. Þetta er dæmi um svoleiðis dressingu.
Döðlur og Tahini er bragðsamsetning sem ég fæ ekki nóg af. Algjört miðausturlenskt nammi. Ég hef skrifað það hér áður en Miðausturlönd heilla mig alveg ótrúlega mikið þegar það kemur að matargerð. Tahini er hægt að nota á svo marga vegu og döðlur líka en saman fullkomnar það hvert annað. Hér er sæt dressing úr tahini, döðlusírópi og balsamik ediki.
Dressingin verður mjög sæt … en stundum þurfum við bara að gera salatið okkar að Nammi… ! Ég lofa ykkur að þetta er bara galið gott og passar ógeðslega vel útá ferskt salat með súrkáli eða kapers, helst gúrku og rauðlauk líka… bara til að ná alvöru braðglaukaferðalagi ;)… svo er það auðvitað líka stór kostur hvað er fljótlegt að hræra henni saman en það er einstaklega hentugt að döðlusírópið sé í þægilegum kreistibrúsa.
Færslan er unnin í samstarfi við Rapunzel á íslandi.
Þú þarft:
1/2 dl tahini
1 msk balsamikedik
2 tsk lífrænt döðlusíróp frá Rapunzel
1/2 dl vatn
Aðferð:
Hellið tahini-inu í skál, bætið döðlusírópi og balsamikediki útí og hrærið með gaffli. Bætið köldu vatni smátt og smátt útí á meðan þið hrærið vel. Sósan byrjar á því að þykkna en leysist svo aftur upp og verður að silkimjúkri sósu.
Mæli með til að nota útá ferskt salat og gott er að hafa eitthvað súrt í salatinu svo dressingin njóti sín sem best.
Verði ykkur að góðu.