Þessar eru fullkomnar í helgarbrunchinn. Mamma á eiginlega heiðurinn af þessari uppskrift og síðan hún varð til (fyrir mögulega einhverjum árum) höfum við ekki gert aðra því hún er einfaldlega geggjuð. Mamma var búin að vera að prófa sig áfram í að búa til amerískar pönnukökur en flestar uppskriftirnar innihéldu sykur. Hún er amman sem vill heldur betur dekra við barnabörnin sín en á sama tíma tekur hún 100% þátt í því að sleppa sykri á borðum svo með fáeinum breytingum varð þessi uppskrift til. Rifin epli gefa frá sér sætt bragð þegar þau hitna sem gerir pönnukökurnar sætar en þú finnur þó ekki beint eplabragð… erfitt að útskýra svo þú verður einfaldlega bara að prófa! ;)

Þú þarft:

  • 1 bolli hveiti

  • 1 msk lyftiduft

  • 1/4 tsk salt

  • 2 lítil lífræn epli (rifin)

  • 1 bolli jurtamjólk (hafra eða möndlu)

  • 1 msk eplaedik

  • 1 tsk vanilludropar

Aðferð:

  1. Blandið saman þurrefnum í skál.

  2. Rífið eplin niður með rifjárni eða í matvinnsluvél og bætið útí ásamt vökvanum

  3. Hrærið vel og það er ágætt að leyfa deiginu að standa í 5-10 mínútur.

  4. Steikið á pönnu þar til loftbólur hafa myndast og snúið yfir á hina hliðina. Ef þið notið pönnu sem er ekki viðloðunarfrí er betra að steikja í olíu en annars ekki.

Okkur þykir rosa gott að bera þær fram með berjum og vegan þeyttum rjóma og stundum smá hlynsírópi. Þær eru líka góðar bara með smjöri.

* 1 bolli = ca 2 dl

Verði ykkur að góðu.

Previous
Previous

Grænn ferskpressaður safi með myntu

Next
Next

Aspasbrauðréttur