Myntuís með "súkkulaði"

Ís, hver elskar ekki ís? Hér er einn ferskur og algjörlega sykurlaus ís sem þó slær á sykurlöngunina og nærir okkur í leiðinni… svona ís sem má borða í morgunmat og alveg einstaklega góður. Spínatið gerir ísinn grænan en bragðið fer algjörlega í felur, frosnu bananarnir sjá um áferðina, döðlurnar gera hann extra sætann, kakósmjörið og kakónibburnar leika svo hlutverk súkkulaðibitanna og gera það bara einstaklega vel, myntan setur svo punktinn yfir i-ið og gerir hann að ferskum myntuís.

Ég nota bæði kókosvatn og möndlumjólk í ísinn en kókosvatnið finnst mér gera hann extra léttann, kókosbragðið kemur þó ekki í gegn og möndlumjólkin heldur kremuðu áferðinni. Það er að sjálfsögðu hægt að velja að nota annaðhvort bara kókosvatnið eða möndlumjólkina ef þú ert óvön/óvanur að nota þessa vökva til að spara þér aðra fernuna.

Færslan er unnin í samstarfi við Krónuna á íslandi en þú færð allt í ísinn í stærri krónuverslunum.

Þú þarft (fyrir ca 2):

  • Handfylli frosið spínat

  • 2 frosnir bananar

  • fersk myntublöð, ca 1/2 dl + auka til að toppa ísinn með

  • 3 ferskar döðlur (taka þarf steininn úr)

  • 1 msk kakósmjör, saxað

  • 1/2 dl kókosvatn

  • 1/2 ósæt möndlumjólk, ég kaupi þessa frá isola

  • 1 msk kakónibbur + auka til að toppa ísinn með

Aðferð:

  1. Komið frosnum bönunum fyrir í bitum í blandara eða matvinnsluvél ásamt spínati, myntublöðum, döðlum, kakósmjöri, kókosvatni og möndlumjólk.

  2. Blandið vel þar til áferðin líkist rjómaís.

  3. Bætið kakónibbum útí og blandið í stutta stund.

  4. Berið fram í litlum skálum eða glösum og toppið með kakónibbum og myntublöðum.

Verði ykkur að góðu.

Previous
Previous

Besta súkkulaðisósan, lífræn í þokkabót

Next
Next

Spírusamloka með tahini og sinnepi