Ferskur salatdiskur með hummus og tahinisósu

Þessi salatdiskur á sér sögu í minni æsku. Mamma var vön að útbúa salatdisk fyrir mig af og til þegar við vorum tvær einar heima og ég elskaði það, þetta var svo mikill lúxus að fá svona mömmusalat. Það var í raun bara ferskt grænmeti (cellerí var algjört must!), salat og tahinisósa. Hér hef ég bætt við hummus til að gera diskinn enn saðsamari en það er í raun útfærslan sem varð til í fæðingarorlofi hjá mér. Hægt er að eiga niðurskorið grænmeti í boxi inní ísskáp og tilbúna dressingu og þá er þetta kærkomin máltíð á 2 mínútum fyrir foreldra í orlofi eða bara fyrir hvern þann sem vill einfalda sér lífið. Hér að neðan hef ég haft einfaldleikann að leiðarljósi og valið keyptan tilbúinn hummus í uppskriftina en það er að sjálfsögðu hægt að útbúa hummusinn heima, hér er t.d uppskrift af klassískum hummus og hér er uppskrift að bleikum óhefðbunari hummus sem er líka æði.

Uppskriftina vann ég í samstarfi við Krónuna í janúar í fyrra þegar það var áhersla á hollustu en þú getur keypt allt hráefni í þennan dásamlega tahini disk með einu klikki í krónuappinu.

Þú þarft:

  • 125 gr salatblanda frá lambhaga

  • 1 gul papríka

  • 1 rauð papríka

  • 2 sellerístilkar

  • ½ gúrka

  • 250 gr kokteil tómatar

  • 1 klassískur hummus frá sóma

  • 50 gr brokkólí og smáraspírur frá eco spíra

Tahinisósan:

  • ¾ dl ljóst lífrænt tahini

  • 1-¼ dl vatn

  • ½ sítróna (safinn)

  • 1-2 hvítlauksrif

Aðferð:

  1. Útbúið dressinguna með því að setja tahini, sítrónusafa, rifinn hvítlauk í krukku með loki og hristið saman. Bætið svo vatninu útí í skömmtum og hristið á milli. Ég leitast eftir að ná áferð svipaðri og á jógúrt.

  2. Skolið grænmetið og skerið smátt. 

  3. Berið fram salat, smátt skorið grænmeti og spírur ásamt hummus og toppið með tahinisósu.

Verði ykkur að góðu.

Previous
Previous

Möndlukurl, salatkurl eða máltíðarkurl sem gefur máltíðinni þetta litla extra

Next
Next

Hollar lakkrís- & sítrónukúlur