Ferskt og litríkt salat með appelsínu- & engiferdressingu

Ég hefði kannski átt að skýra þetta “Regnbogasalat”?

Náttúran er svo mögnuð og það er ekki að ástæðulausu að náttúran hefur skapað grænmeti í öllum regnbogans litum. Hver litur inniheldur ólík næringarefni og er ágætt að reyna að borða sem flesta liti daglega. Hér höfum við salat sem nær utan um nær alla litaflóruna og ég er ekki frá því að það bætist í gleðihormónin við það að borða þessa litadýrð.

Færslan er unnin í samstarfi við Krónuna. Psst… á morgun byrjar Bændamarkaðurinn og þá er tilvalið að velja ferska íslenska uppskeru í salatið.

Þú þarft:

  • 1/4 hluti hvítkál (ca 260gr)

  • 1/4 hluti rauðkál (ca 170gr)

  • 2 meðalstórar gulrætur

  • 1/2 rauðlaukur

  • 1/2 gúrka

  • 1 papríka, rauð

  • 1 þroskaður mangó

  • 100gr spínatkál

  • 100gr íssalat

  • 2-3 þroskaðir avocado

  • 2 stilkar vorlaukur

  • Kóreander (eftir smekk)

  • ólífuolía

  • salt

    *salthnetur myndu passa vel við salatið

Dressing:

  • 2 appelsínur

  • 1 lime (safinn)

  • 4 msk tamarisósa

  • 4 msk lífræn óristuð sesamfræ

  • 1 msk ólífuolía

  • vænn bútur engifer (eftir smekk)

    *Hægt er að bæta við smá vatni ef þið viljið þynnri dressingu en einnig er hægt að setja bara safann úr appelsínunni í stað þess að setja hana heila.

Aðferð:

  1. Rífið niður hvítkál, rauðkál og gulrætur. Setjið nokkra dropa af ólífuolíu og smá salt og nuddið því vel inní grænmetið. Við þetta mýkist hvítkálið og rauðkálið og það verður bæði auðveldara að borða það og melta.

  2. Skolið og skerið restina af grænmetinu niður og komið öllu fyrir í stórri skál. Ef þið sjáið fram á að það verði afgangur er ágætt að hafa avocadoinn sér þar sem hann geymist ekki jafn vel.

  3. Útbúið dressinguna með því að setja öll hráefni í blender eða einnig er hægt að nota hátt glas og töfrasprota.

  4. Berið fram litríka salatið með appelsínu og engifer dressingunni. Toppið með extra kóreander (og salthnetum ef vill).

Verði ykkur að góðu.

Previous
Previous

Heslihnetukubbar

Next
Next

Pekanhnetukúlur með möndlusmjöri og kanil