Glútenlausar carob múffur
Ég var vön að baka súkkulaðibananabrauð eða muffins í hvert sinn sem ég átti brúna banana, við erum alveg húkt á því. En svo ákvað ég, útaf svolitlu, að taka út glútein og leggja áherslu á basíkst matarræði. Ég hef því meira notað carob uppá síðkastið í staðinn fyrir kakó þar sem carob er basískara…. og mér finnst það líka bara skemmtileg tilbreyting, það er náttúrulega sætt og æðislega gott. Ég nota það líka til að toppa smoothieskálar og krakkarnir eru sjúk í það. Ég fór þó að sakna þess að baka bananamúffur og borða með krökkunum svo ég ákvað að gera tilraunir til að gera glúteinslausar sykurlausar muffins og ég er bara nokkuð ánægð með útkomuna. Þær hafa horfið hratt hingað til á mínu heimili. Ég myndi ekki bera þessar muffins saman við dísætar sykraðar bakarísmuffins þar sem þetta eru bara annarskonar muffins, þær flokkast frekar sem skemmtilegt millimál og eru frábærar í nestisboxið.
Ef þú ert ekki fyrir carob þá er að sjálfsögðu hægt að skipta því út fyrir kakó eða sleppa því alveg.
Færslan er unnin í samstarfi við Rapunzel á Íslandi en hér nota ég hafra, hörfræ, carob, kókos og vanillu frá Rapunzel en allt vörurúrval þeirra eru lífrænt.
Þú þarft:
3 dl haframjöl
1 dl hörfræ
2 tsk lyftiduft
1/2 tsk matarsódi
1 dl kókos
1/4 tsk salt
4 msk carob (hér er hægt að nota kakó í staðinn)
3 stórir þroskaðir bananar
8 döðlur ferskar
1 dl ósæt möndlumjólk
1/2 tsk hreint vanilluduft
3/4 dl kakósmjör (bráðið)
Aðferð:
Byrjið á að mylja hörfræ og hafra niður í duft, ágætt að nota blender.
Bætið svo restinni af þurrefnunum saman í blenderinn og blandið vel og setjið svo möluðu þurrefnin í stóra skál.
Steinhreinsið döðlurnar og skerið niður ásamt því að stappa bananana og setjið útí skálina.
Bræðið kakósmjörið yfir vatnsbaði og bætið útí skálina ásamt mjólkinni og blandið vel. Mér finnst gott að nota gaffal til þess.
Setjið deigið í muffins form, toppið með smá haframjöli eða kókos og bakið í 20 mínútur í ofni á 180C (ég er með blástur á mínum).
Einnig er hægt að baka deigið í brauðformi og bera fram sem glúteinlaust bananabrauð með carobi, þá bakast það í 25-30 mínútur.
Verði ykkur að góðu.