Sykurlaust eplapæ borið fram með óþeyttum vegan rjóma. Þetta pæ hefur þónokkrum sinnum komið með í picnic í góðu veðri. Útivera er bara svo miklu skemmtilegri með gott nesti. Uppskriftin passar í stærri gerðina af glernestisboxunum úr ikea sem mega fara í ofn. Það er því auðvelt að grípa það með sér beint úr ofninum með því að smella lokinu á og setja í nestistösku. Það má auðvitað líka borða þetta inni í kósí.

Nokkrar döðlur, bakaður kókos og eplin sjálf eru svo náttúrulega sæt að þetta pæ getur svo sannarlega fullnægt allri sykurlöngun og hentar vel fyrir litla og stóra munna.

Færslan er unnin í samstarfi við Rapunzel á íslandi og nota ég lífræna hafra og kókos frá Rapunzel í uppskriftina.

Þú þarft:

Eplin:

  • 4 lífræn epli

  • 5-10 gr smjörlíki

  • 1 msk kanill

Haframulningur:

  • 2dl lífrænir hafrar

  • 2dl lífrænt kókosmjöl

  • 8 ferskar mjúkar döðlur

  • 60g smjörlíki

  • Hnífsoddur salt

Ofn 175 - 20 min

Aðferð:

  1. Byrjið á að hita ofninn í 175°C

  2. Brytjið eplin smátt og dreifið kanil yfir þau ásamt 5-10gr af mjúku eða bráðnuðu smjörlíki og blandð vel.

  3. Setjið eplin í eldfast mót og komið fyrir inní ofni á meðan þið útbúið haframulninginn, eða u.þ.b 5 mínútur.

  4. Útbúið haframulninginn með því að byrja á að steinhreinsa döðlurnar og setja svo hafra, kókos, döðlur, smjörlíki og salt í matvinnsluvél. Blandið öllu vel saman.
    Ath. einnig er hægt að saxa döðlurnar smátt og blanda öllu saman með gaffli/höndunum ef þú hefur ekki aðgang að matvinnsluvél.

  5. Setjið haframulninginn ofan á eplin og bakið í ofni á 175°C í 20 mínútur.

  6. Berið fram með óþeyttum eða þeyttum vegan þeytirjóma (ég kýs oatly visp).

Verði ykkur að góðu.

Previous
Previous

Ljúfur rauðrófusmoothie með ananas

Next
Next

Banana-minimuffins