Heit salatskál með svörtum hrísgrjónum og karrýsósu

Er það ekki ótrúlega skemmtilegt þegar það bætist við vöruúrvalið hérlendis af heilnæmum, lífrænum, óunnum vörum…”whole foods”! Er til íslenskt orð yfir “whole foods”?

Þegar ég bjó í Svíþjóð uppgötvaði ég svört hrísgrjón. Þau voru í boði sem grunnur fyrir salat skálar á ótrúlega flottum nútímalegum salatstað sem lagði mikið uppúr gæða hráefni. Eftir það var ekki aftur snúið, þetta eru hrísgrjón með karakter, þau eru grófari undir tönn en þessi hvítu og verða ekki klessugrjón. Þau eru ekki bara skemmtileg á litinn heldur leyna þau á sér hvað varðar næringu. Dökki liturinn sem einkenna þau stafar af andoxunarefninu “anthocyanin” en þetta er sama andoxunarefni leynist einnig í rauðkáli, bláberjum og fjólubláum sætum kartöflum. Það er þessi dökki litur sem einkennir andoxunarefnið. Svörtu hrísgrjónin innihalda einnig meira prótein en flest önnur grjón og eru trefjarík.

Svört grjón þekkjast einnig undir nafninu “the forbidden rice” en þau þóttu svo stórkostleg að aðeins keisarinn og hans fólk fengu að njóta þeirra í Kína til forna. Þegar ég flutti til Íslands fór ég að sakna þeirra. Krónan svaraði kallinu og nú erum við svo heppin að við íslendingar fáum loks að njóta þessarar næringaríku kornvöru.

Færslan er unnin í samstarfi við Krónuna.

Þú þarft:

  • 3 dl Svört hrísgrjón frá Urtekram

  • 1 Brokkolíhaus

  • 3 litlar sætarkartöflur (eða 2 stærri)

  • 2 Rauðrófur (lífrænu - Grön balanse, auðveldast að afhýða)

  • 2 Avocado

  • 1 box af salati, veljum íslenskt, ég er að nota salat frá Vaxa.

Karrýdressing

  • 1 dl hampfræ

  • ½ dl laukur

  • 1 msk sinnep (dijon)

  • 1 ½ msk eplaedik

  • 4 ferskar döðlur

  • 1 tsk karrý

  • 1 dl vatn

  • 1 dl appelsínu safi eða safi úr 1 appelsínu

Aðferð:

  1. Hitið ofninn á 200°C.

  2. Skolið og skerið sætar kartöflur í sneiðar, setjið smá ólífuolíu útá og salt og setjið inní ofn og bakið í 20-30 min.

  3. Skolið svörtu hrísgrjónin og sjóðið í hlutfallinu 1 á móti 2 af vatni. Náið upp góðri suðu og sjóðið svo á lágum hita (6/10). Pakkningin geriri ráð fyrir 50 mín suðutíma, ég síð mín ekki svo lengi og fylgist frekar með því hvenær grjónin hafa dregið vatnið í sig. Ágætt getur verið að leggja þau í bleyti í 30 mín á undan en það þarf ekki.

  4. Gufusjóðið brokkolíhausinn.

  5. Skolið og skerið salatið, avocado, rífið niður rauðrófurnar og útbúið dressinguna.

  6. Dressingin er útbúin með því að blanda öllu sem í hana fer og blanda í litlum blender / nutribulet / með töfrasprota.

  7. Berið fram og njótið. Ég myndi segja að uppskriftin miði við 2 fullorðna og 2 börn.

Verði ykkur að góðu.

Previous
Previous

Ávaxtasafapinnar

Next
Next

Hrásalat með raw hampfrædressingu