Grænt spírusalat með sætri tahini og miso dressingu

Spírusalat! Það er mögulega einfaldasta salat sem þú getur sett saman og á sama tíma kannski það næringarískasta…? Ég er mikið að vinna með það þessa dagana þar sem ég hef minni tíma til að eyða í eldhúsinu, plús það að ég bara elska það og líður svo vel á eftir.

Salat, spírur, súrkál, avocado og salatdressing er í raun aðalgrunnurinn svo leik ég mér með grænmeti og jurtir til að hafa með. Hægt er að nota hvaða grænmeti og jurtir sem er og þær spírur sem þú átt, sjáið salatið hér fyrir neðan sem hugmynd og svo hvet ég ykkur til að prófa ykkur áfram. Þú þarft ekki að nota akkurat þessar tegundir af spírum og ekki svona margar, veldu þínar uppáhalds.

Brokkólíspírur reyni ég að borða daglega þar sem þær eru góðar vinkonur mínar í krabbameinsverkefninu mínu og svo fer það bara eftir því hvaða spírur ég á til hvað fer í salatið.

Það er hægt að kaupa æðislegt spírukonfektbox frá ecospíru inná ecospira.is en í spíruboxinu eru blandaðar tegundir af lífrænum spírum, alfalfaspírur, brokkólíspírur, radísuspírur og prótínblanda. Þetta er alveg brilliant box til að eiga í ísskápnum. Ég spíra mikið sjálf en elska að eiga þetta box í ísskápnum fyrir fjölbreytni og til einföldunar.

Eco spíra flytur einnig inn lífrænu fræin sem hægt er að spíra heima. Ég er alltaf með einhverja spírun í gangi í spírugrindinni minni og það er bara eitthvað við það að spíra sjálfur heima, að sjá þessa mögnuðu spírur verða til út frá pínulitlu fræi. Fræjum sem varla þekja botninn á krukkunni en vakna svo af krafti og næstum sprenja krukkuna utaf af sér.

Ef þú vilt læra að spíra heima þá getur þú skráð þig á biðlista fyrir næstu spírunámskeið hjá mér og Þyri með því að senda mail á spirunamskeid@gmail.com.

Færslan er unnin í samstarfi við eco spíru.

Þú þarft:

  • Grænt salat, hér nota ég spínatkál og íssalat

  • Gúrka

  • Epli

  • Súrkál

  • Avokado

Spírur, veldu þínar uppáhalds, ég notaði:

  • Brokkólíspírur - cancer fighters!

  • Alfaalfa

  • Prótein spírublanda

  • Spíraðar grænar linsur

  • Spíraðar kjúklingabaunir

Jurtir:

  • Graslaukur

  • Kóreander

  • Dill

Sæt tahini & miso dressing
fyrir ca 1, mæli með að tvöfalda:

  • 1 msk tahini ljóst

  • 1 msk miso

  • Safi úr 1 lime eða sítrónu

  • 1 daðla

  • Hnífsoddur vanilluduft

  • ½ dl vatn

Aðferð:

  1. Skolið og skerið salatið, gúrkuna, eplið og jurtirnar.

  2. Útbúið dressinguna með því að blanda öllum hráefnum saman í litlum blender eða með töfrasprota.

  3. Komið salatinu fyrir í skál, raðið spírunum yfir ásamt gúrku og epli. Berið svo fram með klassísku súrkáli, avocado og toppið með jurtum og sætu tahinidressingunni.

Verði ykkur að góðu.

Previous
Previous

Hummus pasta með súrkáli og ólífum

Next
Next

Sumarsalat með kasjúosti, vatnsmelónu og sítrónudressingu