Gazpacho

Gazpacho er köld tómatsúpa sem gjarnan er borðuð á Spáni og Portúgal á heitum sumardögum. Ég verð vör við það að margir séu að spá í því í hvaða röð matur skal borðaður og þá helst í sambandi við blóðsykursstjórnun. Með þessari uppskrift langar mig að sá fræi inní þá umræðu þó með allt annan fókus. Gazpacho súpa er nefninlega frábær sem forréttur til að leggja grunn fyrir komandi máltíð, þá sérstaklega ef máltíðin er elduð.

Ferskt og hrátt grænmeti inniheldur trefjar og ensím sem eru nauðsynleg fyrir meltinguna okkar og vítamínin eru í sinni upprunalegu mynd. Við eldun tapast náttúruleg ensím fæðunnar og göngum við þá á birgðir líkamans. Meltingaóþægindi geta gert vart við sig ef okkur skortir ensím.

Gazpacho er óelduð og þarf einungis blender eða töfrasprota til að töfra hana fram. Hún er gerð úr fersku grænmeti og kryddjurtum og gjarnan toppuð með grænmeti og í mínu tilfelli spírum... og fullt af þeim.

Það má segja að spírur séu lifandi meltingarensím ásamt því að þau innihalda ónæmiseflandi eiginleika, fullt af vítanmínum og  hafa einnig hreinsandi eiginleika. Með því að byrja máltíðina með fersku grænmeti og spírum getum við séð þetta fyrir okkur sem smá tiltekt til að leggja svo góðan grunn fyrir komandi máltíð.... og daginn.

Hér erum við með ofureinfalda útgáfu af Gazpacho en það er hægt að gera allskonar útgáfur af súpunni en oft er gúrka í henni og sumir setja jafnvel melónu í hana. Ekki vera feimin við að prófa ykkur áfram.

Færslan er unnin í samstarfi við Ecospíru og Krónuna en allar vörurnar í þessa uppskrift fást í Krónunni en Krónan er einmitt einn af sölustöðum Ecospíru.

Þú þarft:

Gazpacho (forréttur fyrir 4):

  • 4 íslenskir tómatar

  • 1 rauð íslensk papríka

  • 1/2 chili með fræjum (eða meira ef þú vilt hafa hana sterkari)

  • 1/4 rauðlaukur

  • 1 daðla

  • 1 hvítlauksrif

  • Handfyllir af ferskum jurtum, ég nota blöndu af ferskri myntu, kóreander og basil.

  • salt

Til að toppa með:

  • Blaðlauksspírur frá ecospíru

  • Radísuspírur frá ecospíru

  • Ferskar jurtir

  • Chili

  • Extra virgin ólífuolía

  • Sítróna (má sleppa)

Aðferð:

  1. Skolið og skerið grænmetið og jurtir gróflega.

  2. Komið öllu sem fer í súpuna í blender og blandið þar til áferðin er nokkuð slétt. Smakkið til og saltið (ekki vera feimin við að salta, það dregur upp brögðin).

  3. Hellið í glös og toppið með ólífuolíu, myntu og spírum.

Verði ykkur að góðu.

Previous
Previous

Pekanhnetukúlur með möndlusmjöri og kanil

Next
Next

Ofureinföld linsusúpa sem kemur öllum á óvart