Pikklaður rauðlaukur
Það er alveg ótrúlega einfalt að útbúa pikklaðan/ sýrðan rauðlauk heima. Hann gerir allan mat fallegri með sínum fagurbleika lit og mig langar að segja að bragðið passar með öllu, inní burrito, með indversku, inní vefju, útá salatið…. já bara öllu.
Uppskriftina lærði ég í Svíþjóð og virðist hún vera klassík. Hún er frekar stór en laukurinn geymist lengi í ísskáp í loftþéttri krukku. Hann hverfur þó yfirleitt hratt hér.
*Ég minnka oft sykurinn niður í 1,5 eða 1 dl og það kemur alls ekki að sök.
Þú þarft:
4 rauðlaukar
1 dl edik (matreiðsluedik 5%)
2 dl sykur*
3 dl vatn
Aðferð:
Setjið edik, vatn og sykur í pott og látið sjóða þar til sykurinn hefur bráðnað. Skerið rauðlaukinn í sneiðar og komið honum fyrir í passlegt ílát sem hægt er að loka og þolir hita. Hellið svo edikblöndunni yfir laukinn og setjið til hliðar.
Leyfið lauknum að standa í amk 15 mínútur, því lengur sem hann fær að liggja í edikvökvanum því sætari verður hann.
Sjáðu hér hvernig ég helminga uppskriftina og nota minni sykur.
Verði ykkur að góðu.