Heimagert granóla með döðlum og kanil

Það jafnast ekkert á við heimagert granóla og ég tala nú ekki um hvað það eldhúsið ilmar á meðan það er í ofninum. Gott á jógúrt, á smoothie skálina eða bara í lófann og beint uppí munn. Svo hef ég líka stundum gefið svona granóla í gjöf í fallegri krús með slaufu og miða með innihaldi eða uppskrift.

Í uppskriftina nota ég að mestu lífrænar vörur frá Rapunzel. Ég kýs að velja lífrænt sem oftast.

Færslan er unnin í samstarfi við Rapunzel á íslandi.

Þú þarft:

Það þurra:

  • 2 bollar* lífrænir grófir hafrar

  • 1 bolli lífrænt kókosmjöl

  • ¾ bolli lífrænar möndlur

  • ¾ bolli pekanhnetur

  • 10 mjúkar steinhreinsaðar döðlur

 Það blauta:

  • ½ bolli hlynsíróp

  • ½ bolli kókosolía t.d frá rapunzel

  • 1 msk vanilludropar

  • 1 msk kanill

  • 1 tsk kardimomma

  • 2 msk hnetusmjör

  • Hnífsoddur salt

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 150C.

  2. Byrjið á að saxa möndlurnar og hneturnar gróft. Fjarlægið steininn úr döðlunum og klippið þær í minni bita. Mér finnst best að nota mjúku döðlurnar í kössunum. Setjið svo allt þurra saman í stóra skál.

  3. Komið öllu því blauta, ásamt kryddum, saman í pott og hitið á vægum hita. Hrærið vel í allan tíman þar til allt hefur blandast vel, viljum við ná að leysa upp hnetusmjörið án þess að það komi upp suða. Hellið því blauta svo yfir það þurra og blandið vel.

  4. Dreifið blöndunni á ofnplötu og bakið í um.þ.b. 25 mínútur. Það er gott að hreyfa við því eftir fyrsta korterið. Leyfið granólanu að kólna á plötunni áður en sett í loftþétta krukku.

*Ég nota bollamál sem er rétt rúmlega 2 dl, svo það er vel hægt að umreikna uppskriftina út frá 2dl til einföldunar, 1/2 bolli hlynsíróp yrði þá 1 dl. í staðinn o.s.fr.

Verði ykkur að góðu

Previous
Previous

Spæsí chipotle salat

Next
Next

Vegan burrito með steiktu grænmeti, refried beans og tómatsalsa