Spaghetti grasker með vegan ostasósu

Hrekkjavakan er að ganga í garð sem þýðir að graskerin eru áberandi í Krónunni. Þetta er sennilega eini tími ársins sem Spaghetti grasker eða spaghetti squash er fáanlegt sem gerir það eitthvað svo ótrúlega spennandi! Gerðu þér ferð í Krónuna og gríptu tækifærið á meðan þau eru enn í boði…… litli bónusinn er að þau eru lífræn! Já ég er að elska það, vel gert Krónan!

Spaghetti grasker eru þráðótt að innan sem gefur því skemmtilega áferð sem minnir á spaghetti þó bragðið sé heldur ólíkt. Graskerið minnir nokkuð á kúrbít á bragðið en er kannski ögn sætara.

Hér er ég með bakað spaghetti grasker með vegan ostasósu gerða úr kartöflum, gultórum, kasjúhnetum og kryddum. Uppskriftin að sósunni er heldur stór …. en ég lofa að þú munt elska það. Sósan er fullkomin til að nota sem ídífu fyrir gulrótastrimla eða kex ef þú situr uppi með afgang.

Uppskriftin miðast við 1 grasker og myndi ég gera ráð fyrir að einstaklingur borði 1/2 grasker. Fullkomið að bera fram með salati til hliðar.

Færslan er unnin í samstarfi við Krónuna en þar finnur þú allt í þessa uppskrift.

Þú þarft:

  • 1 spaghetti squash sem fæst í Krónunni

  • ólífuolía

  • salt

Vegan ostasósan:

  • Nokkar gulrætur (2 handfylli af skornum gulrótum)

  • 1 stór bökunarkartafla

  • 2 dl kasjúhnetur

  • 1 dl plöntumjólk

  • 1 1/2 msk næringarger

  • safi úr 1/2 sítrónu

  • 1 tsk laukduft

  • 1-2 hvítlauksrif (valfrjálst en ég mæli með því)

  • 1 tsk salt

  • 1/4 tsk túrmerikduft (valfrjálst, gefur bara gulari lit)

Toppið með

  • graslaukur

  • salti og sítrónusafa

Aðferð:

  1. Byrjið á að stilla ofninn á 200°

  2. Leggja kasjúhneturnar í bleyti í heitt vatn þar til þið útbúið sósuna (10 min lágmark).

  3. Þegar ofninn er orðinn heitur er graskerið sett heilt inní ofn í 10 mínútur.

  4. Eftir 10 mínútur er graskerið tekið úr ofninum og skorið í tvo helminga, því komið fyrir í eldfast mót eða á ofnplötu með innri hlutann upp. Skafið steinana burt og skvettið smá ólífuolíu og salti útá graskershelmingana (ekki mikið) og bakið í 30 mínútur í viðbót á 200°.

  5. Útbúið nú sósuna með því að afhýða kartöfluna, skera hana ásamt gulrótunum og koma fyrir í potti, ég kýs að gufusjóða það en það er valfrjálst. Sjóðið eða gufusjóðið þar til orðið mjúkt.

  6. Setjið nú kartöfluna og gulræturnar ásamt blautlögðum kasjúhnetum og restinni af sósuhráefninu í blender og blandið þar til silkimjúkt.

  7. Þegar graskerið hefur bakast er ágætt að nota gaffal og losa um graskersmassann. Þá má hella ostasósunni yfir og toppa með smáttskornum graslauk, sítrónusafa og auka salti.

Verði ykkur að góðu.

Previous
Previous

Ofnæmisvænar kókoskúlur

Next
Next

Bleikur engifer chaga latte