Karrý pasta með Madras tófú
Ég er mikill aðdáandi af mat sem hægt er að útbúa með fyrirvara og borða bæði heitt og kalt og ef ég er að fara í ferðalag með nesti þá er pastasalat einhvernegin alltaf það fyrsta sem poppar uppí hausinn á mér.
Þú þarft:
Pastasalatið:
500 gr Dececco pasta slaufur
2 lúkur stökkt íssalat
1 rauð papríka
3 stilkar vorlaukur eða 1/2 rauðlaukur
Karrýsósa:
270 ml vegan mæjónes (1 askja vegan krónu mæjónes)
1 msk karrý
1/2 lime (safinn)
1/8 jurtasalt
Tófúið:
450 gr tófú
2 msk madaras spice paste frá Pataks
1/2 msk sojasósa
2 msk oatly hafrarjómi
1 msk olía
Aðferð:
Takið tófúið úr pakkningunni og vefjið inní viskustykki eða eldhúspappír og leggið eitthvað þungt ofan á og leyfið að pressast í 15 mínútur eða lengur. Ef þið eigið tófúpressu er gott að nota hana en það þarf alls ekki.
Blandið saman madras spice paste, sojasósu, hafrarjóma og olíu í skál. Þegar tófúið hefur verið pressað er það skorið í litla 1 cm teninga og velt uppúr marineringunni og leyft að liggja í henni í 15 mínútur.
Dreifið tófúinu á ofnplötu og bakið í ofni á 200°C blæstri í 15 mínútur.
Sjóðið pastað skv. leiðbeiningum á pakkningu. Skerið papríku og vorlauk og rífið niður íssalatið. Útbúið karrýsósuna með því að blanda saman vegan mæjónesi, karrý, jurtasalti og safa úr lime.
Að lokum er öllu blandað saman í stórri skál.
Pastað má borða heitt eða kallt svo þetta er tilvalið sem hádegismatur daginn eftir eða nesti í vinnuna.
Verði ykkur að góðu.