Gulrótarsafi með ananas og túrmerik
Ég vona innilega að þú eigir djúsvél því mér finnst orðið svo ótrúlega gaman að mynda nýpressaðan djús. Ég er svo heilluð af svona einstaklega tærum og sterkum lit. En ferskur djús er líka orðinn fastur liður hjá mér á hverjum degi og þá er svo skemmtilegt að prófa nýjar samsetmningar. Hér kemur gulrótarsafi með sellerí, ananas, engifer, túrmerik og sítrónu. Mögulega er aðeins of langt síðan ég borðaði sykur EN þessi djússamsetning framkallaði bragð sem minnti mig í stutta stund á karamellu. Bragðið kom svo sannarlega á óvart og ég get engan vegin skilið hvaða galdrar áttu sér stað í vélinni minni.
Þú þarft:
5 gulrætur
3 sellerístilkar (eða eftir smekk, minna ef þú vilt sætari safa)
2 dl ferskur ananas
1 sítróna
engifer biti (eftir smekk)
lítill bútur af túrmerik rót (ca 1-3 cm), ath hún er frek á bragðið
Hvet ykkur til að velja sem mest lífrænt.
Aðferð:
Skolið og skerið grænmetið, afhýðið hluta af ananas (miðjan má fara í djúsvélina) og afhýðið sítrónuna. Ef engiferinn og túrmerikið er lífrænt má hýðið fara með í djúsvélina.
Skellið öllu í gegnum djúsvél, hellið í glas og njótið.
Verði ykkur að góðu.
raunveruleikinn með lítinn 2 ára aðstoðarmann…. og sá 5 ára fékk að horfa á barnatíminn :D