Bleikur hvítbaunahummus með rauðrófu og capers
Hér erum við með ótrúlega ferskan rauðrófuhummus með capers. Já eða baunahræru… tæknilega séð er þetta ekki hummus þar sem “hummus” þýðir “kjúklingabaunir” en hér nota ég hvítar cannellini baunir. Ég leyfi mér þó að kalla þessa baunahræru hummus þar sem það hljómar betur og þennan hvítbaunahummus má bera fram eins og hefðbundin hummus. Ég elska hvað rauðrófan gerir hann fallegan á litinn en tekur ekki yfir bragðið nema gefur skemmtilega sætan keim. Capersinn er svo aðeins meira áberandi í bragðinu. Það er líka skemmtileg tilbreyting að prófa sig áfram með hvítar baunir en þær eru mun mýkri en kjúklingabaunir svo þú þarf ekki að beita neinum trixum eða eiga flóknar græjur til að fá áferðina silkimjúka. Þessi fallega bleiki hummus passar æðislega vel með grænmetisstrimlum og steiktum tortillabútum/kexi eða bara útá pastaskrúfur ásamt salati og súrkáli…. eða bara eins og þú kýst að borða hummus.