Heimagerð lífræn möndlujógúrt
Ég hef reynt að borða sem mest basískt síðustu mánuði og möndlur hafa verið í uppáhaldi þar sem þær eru basískar. Ég geri möndlumjólk í hverri viku og langaði að prófa að gera jógúrt úr henni. Fyrstu tilraunir gáfu rosalega lítið hlutfall af þykkri jógúrt og mun meira af þunnum vökva eftir gerjunina. Það þýddi því ekki að hræra það saman nema vera með eitthvað til að binda. Ég prófaði mig áfram með chia en það varð bara alls ekki eins og ég vildi hafa það. Fyrr í vor sat ég fyrirlestra hjá náttúrulækni frá Perú þar sem hann talaði meðal annars um ýmsar jurtir og nefndi þar Tara gum sem er notað til þykkja ýmislegt…. það fyrsta sem ég hugsaði var Möndlujórtin!! Ég yrði að prófa að nota það til að þykkja hana og nýta hráefnið betur. Vá hvað þetta er magnað efni, 100% náttúrulegt og loksins varð jógúrtin eins og ég vildi hafa hana! Þetta er búið að vera skemmtilegt tilraunaverkefni og mun ég svo sannarlega gera þessa aftur og aftur og aftur. Vegan, basísk og lífræn jógúrt algjörlega án allra aukaefna.